Jose Cabrera, 71 árs maður frá Ekvador dó í lok október og síðan þá hefur komið í ljós að hann var höfuðpaurinn í 800 milljón dala svindli sem þúsundir manna hafa fjárfest í. Cabrera fékk hjartaáfall og dó í örmum 18 ára unnustu sinnar eftir að hafa reykt kókaínblandað tóbak, tekið inn Viagra og drukkið áfengi.
Andlát hans skaut þúsundum Ekvadorbúa skelk í bringu, því það er fjöldi þeirra sem undanfarna tvo áratugi hafa látið lögbókarann Cabrera fá í það minnsta tíu þúsund bandaríkjadali á mann til að láta hann ávaxta féð með tíu prósent vöxtum á mánuði.
Talið er að Cabrera hafi velt um 800 milljónum bandaríkjadala og að svikamylla hans hafi gert þúsundir Ekvadorbúa gjaldþrota. Á meðal þeirra sem lögðu inn peninga hjá honum voru hátt settir menn innan yfirstjórnar hersins, dómarar, stjórnmálamenn og fjölskyldur þeirra. En flestir fjárfestarnir voru óbreyttir her- og lögreglumenn.
Innanríkisráðherra landsins, Alfredo Castillo sagði að svikamyllan væri trúlegast tengd peningaþvætti og eiturlyfjasölu, ólöglegri vopnasölu eða jafnvel peningafölsun.
Sonur Cabrera og dóttir hafa neitað því að faðir þeirra hafi gert nokkuð misjafnt og lofuðu að fara yfir fjármál hans en hafa síðan horfið og er talið að þau séu í felum í Bandaríkjunum.
Ekvador þurfti að taka upp bandaríkjadalinn sem gjaldmiðil eftir að fjárhagurinn kolféll 1999 í kjölfar mikils samdráttar í efnahagnum.
Þegar andlát Cabreras spurðist út tóku menn sem höfðu treyst honum fyrir sparifé sínu sig til og grófu líkið upp til að sannfærast um að hann væri í raun og veru dáinn en ekki á flótta með peningana þeirra. Margir Her- og lögreglumenn hafa verið reknir fyrir þátttöku í svikamyllunni.