Kveikt í danska og norska sendiráðinu á Sýrlandi

Slökkviliiðsmenn sjást hér sprauta vatni á eldana sem voru kveiktir …
Slökkviliiðsmenn sjást hér sprauta vatni á eldana sem voru kveiktir í danska sendiráðinu í Damaskus í dag. AP

Reiðir mótmælendur réðust inn í danska sendiráðið í Damaskus á Sýrlandi í dag og kveiktu í því, en mótmælendurnir voru að mótmæla skopmyndunum af Múhameð spámanni sem birtust fyrst í Jótlandspóstinum í Danmörku. Slökkvilið var kallað á staðinn til þess að slökkva elda. Sendiráðið er á jarðhæð í þriggja hæða húsi þar sem einnig er að finna sendiráð Chile og Svíþjóðar. Danska sendiráðið er þó ekki það eina sem hefur orðið eldinum að bráð því mótmælendur hafa einnig kveikt í sendiráði Noregs í landinu.

SMS-textaskilaboð hafa verið á berast manna á milli í Damaskus, en þar kemur fram að Danir hafi ætlað sér að koma saman á einum af aðaltorgunum í Kaupmannahöfn og brenna eintök af Kóraninum. Fólk var því hvatt til þess að mæta fyrir framan sendiráðið til þess að mótmæla.

Svipuð skilaboð höfðu verið send í Egyptalandi í seinustu viku.

„Danmörk vil brenna hinn heilaga Kóran á laugardag í Kaupmannahöfn til þess að svara því að múslímar sniðgangi danskar vörur“ sagði í skilaboðunum í Egyptalandi í síðustu viku. Þar voru múslímar hvattir til þess að bölva Dönum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka