Tala látinna komin yfir 4.600 á Jövu

Indónesískur maður syngur lag fyrir dóttur sína sem á eins …
Indónesískur maður syngur lag fyrir dóttur sína sem á eins árs afmæli í dag, á sjúkrahúsi í Yogyakarta. Reuters

Yfir 4.600 manns létust í jarðskjálftanum á eynni Jövu í gær. Björgunarsveitarmenn leita nú í húsarústum af fólki sem kann að vera á lífi. Þá eru öll sjúkrahús yfirfull af slösuðu fólki og eiga læknar og hjúkrunarfólk fullt í fangi með að veita því aðhlynningu.

Að sögn talsmanna barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hafa yfir 20.000 manns slasast og yfir 100.000 hafa misst heimili sín. Þær tölur eru þó sagðar vera á reiki.

Fjöldi sjálfboðaliða hafa lagt leið sína til héraðsins sem varð verst úti til þess að aðstoða við leit og hjálparstörf.

Þá er búið að flytja lyf og líkpoka á flugvöllinn í Yogyakarta.

Að sögn eldfjallafræðings hafði magnaði skjálftinn eldvirkni í eldfjallinu Merapi sem er skammt frá Yogyakarta. Eldfjallasérfræðingar telja að fjallið muni gjósa á næstunni, en drunur hafa heyrst frá því auk þess sem það hefur spúð ösku og glóandi hrauni.

Að sögn indónesískra yfirvalda var tala látinna komin í 4.611 manns í kvöld að staðartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka