Öldungadeildin samþykkti frumvarp um aukin fjárframlög til stofnfrumurannsókna

George W. Bush.
George W. Bush. Reuters

Öldungadeild bandaríska þingsins greiddi því atkvæði í dag að auka framlög ríkisins til stofnfrumurannsókna og sendi frumvarp þess efnis áleiðis til forseta landsins, George W. Bush, sem hét því fyrr í dag að beita neitunarvaldi sínu og samþykkja frumvarpið ekki.Það verður í fyrsta sinn í hans forsetatíð sem því valdi er beitt.

Atkvæði voru 63 með frumvarpinu en 37 á móti. Aðeins vantaði fjögur atkvæði upp á að frumvarpið færi í gegn án þess að þurfa samþykki Bush. Talsmaður forsetans, Tony Snow, sagði afstöðu Bush skýrast af því að honum þætti rangt að myrða. „Forsetinn ætlar ekki út á þann hála ís að taka eitthvað af lífi í þágu vísindanna,“ sagði Snow.

Öldungadeildin á eftir að taka fyrir lagabreytingar sem eiga annars vegar að hvetja til þess að stofnfrumur séu ekki notaðar úr fósturvísum í því skyni að lækna sjúkdóma eða græða menn og hins vegar að koma í veg fyrir ,,fósturvísabúskap", þ.e. að frjóvga egg og mynda fósturvísa til þess eins að nota við rannsóknir. Búist er við því að Bush undirriti hvort tveggja. Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert