Grunur leikur á að sjálfsvígsárásarmaður hyggist ráðast á Bush

Múslímskar konur mótmæla heimsókn Bush til Bogor, þar sem hann …
Múslímskar konur mótmæla heimsókn Bush til Bogor, þar sem hann mun funda með forseta Indónesíu. Reuters

Lögreglan á Indónesíu rannsakar nú óstaðfestar fréttir þess efnis að sjálfsvígssprengjumaður hyggist gera árás á George W. Bush Bandaríkjaforseta og fylgdarlið hans sem sækir nú landið heim. Þúsundir manna hafa hópast saman í landinu til þess að mótmæla utanríkismálastefnu Bandaríkjanna í Írak og Miðausturlöndum.

Hundruð námsmanna reyndu að loka bandarísku veitingakeðjunum McDonalds, Pizza Hut og Dunkin' Donut í tveimur borgum í fjölmennasta múslímaríki heims og lenti sumir þeirra í átökum við lögreglu.

Bush kom til Indónesíu síðdegis í dag að staðartíma og hann mun fljúga með þyrlu til bæjarins Bogor, sem er rétt sunnan við höfuðborgina Djakarta, en þar mun hann ræða við forseta landsins, Susilo Bambang Yudhoyono.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka