Ismail Haniyeh, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínumanna, sagði í dag að herská samtök í Palestínu hefðu ákveðið að hætta að skjóta heimatilbúnum eldflaugum á Ísrael ef Ísraelsstjórn hætti hernaðaraðgerðum á Vesturbakkanum og Gasasvæðinu.
Miri Eisin, talsmaður Ehuds Olmerts, forsætisráðherra Ísraels, sagði að þetta tilboð væri fráleitt og hvatti Palestínumenn til að leggja fram raunhæfari áætlun um að stöðva ofbeldisölduna sem risið hefur á heimastjórnarsvæðunum að undanförnu.
Samtök Palestínumanna hafa oft komið sér saman um að hætta aðgerðum gegn Ísrael ef Ísraelsher svari í sömu mynt. Ekki hefur þó tekist að koma í veg fyrir átök.
Í dag hafa tveir 10 ára gamlir drengir fallið fyrir kúlum ísraelskra hermanna á Gasasvæðinu. Í gær sprengdi 66 ára gömul palestínsk kona sprengju, sem hún bar á sér, innan um ísraelska hermenn á norðurhluta Gasasvæðisins. Konan lést og tveir hermenn særðust lítillega.