Geimfarinn Lisa Marie Nowak ákærð fyrir morðtilraun

Lisa Nowak og William Oefelein.
Lisa Nowak og William Oefelein. AP

Bandaríski geimfarinn Lisa Marie Nowak var í dag ákærð fyrir morðtilraun og fær ekki að ganga laus, þetta kemur fram á fréttavef Yahoo. Talsmaður lögreglunnar í Orlando segir að ætlunin hafi augljóslega verið að myrða geimfarann Colleen Shipman, og vísaði til hnífs, stálhamars, gúmmíreima og ruslapoka sem fundust í bíl Nowak.

Dómari hafði áður úrskurðað að Nowak fengi að ganga laus gegn 15,500 dala tryggingu, en skömmu áður en henni var sleppt voru henni birtar nýjar ákærur.

Nowak ók um 1.500 kílómetra leið frá Houston til Orlando og sat fyrir Shipman við bíl hennar á flugvelli. Hún fékk síðan Shipman til að opna gluggann á bíl sínum og sprautaði á hana piparúða. Shipman náði hins vegar að aka á brott og gera öryggisvörðum viðvart. Skömmu síðar fann lögregla Nowak á strætisvagnastöð þar sem hún er sögð hafa reynt að losa sig við hárkollu og byssu í ruslatunnu.

Nowak, sem fór í sína fyrstu geimferð með geimferjunni Discovery í júlí á síðasta ári, og Shipman eru báðar sagðar hafa átt í ástarsambandi við flugstjórann Bill Oefelein

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert