Forsætisráðherra Skotlands gagnrýnir Breta vegna Icesave

Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands.
Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands. Reuters

Alex Salmond, forsætisráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega í dag fyrir að hafa beitt hryðjuverkalöggjöf til að frysta eigur Landsbankans í Bretlandi.

Fram kemur í skoska dagblaðinu The Scotsman að Salmond hafi sagt í fyrirspurnatíma á skoska þinginu í dag að komið hafi í ljós að menn hafi ítrekað varað við ástandinu og því sem gæti gerst ef bankarnir færu á hliðina. Þetta hafi komið fram í viðræðum milli háttsettra íslenskra og breskra embættismanna.

„Ég tel að það sé bæði rétt og viðeigandi að gripið sé til aðgerða til að verja hagsmuni skoskra og breskra sparifjáreigenda,“ sagði Salmond í dag.

Hann segir hins vegar að það sé óskynsamlegt að láta fólk halda að það hafi verið stimplað sem hryðjuverkamenn eða að það tilheyri hryðjuverkasamtökum.

Hann segir að besta leiðin til að ná sáttum sé við samningaborðið en án þess að „uppnefna fólk eða lýsa fólki sem einhverju sem það er svo sannarlega ekki.“

Fram kom í máli forsætisráðherrans en að hann viti ekki betur en að viðræður milli breskra og íslenskra stjórvalda séu farnar að bera árangur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka