Afríkugloppa Söruh Palin var gabb

Sarah Palin.
Sarah Palin. AP

Margskonar glappaskot og vankunnátta var hermd upp á Söruh Palin, varforsetaefni repúblikana, í nýliðinni kosningabaráttu um forsetaembættið í Bandaríkjunum. Ein af þeim verri þótti að hún skyldi hafa haldið að Afríka væri land en ekki álfa. Nú er hins vegar komið á daginn að þetta var eintómt gabb, einhverskonar bandarískir Baggalútar brugðu á leik og fréttin fékk vængi þegar ýmsir virðulegir fjölmiðlar Bandaríkjanna gengu í vatnið vegna þess að þeir vanræktu að sannreyna frumheimildina.

Allt byrjaði þetta þannig að Fox sjónvarpsfréttastofan hafði eftir ónefndum starfsmanni í kosningastjórn McCain að Sarah Palin hefði ekki vitað að Afríka væri heimsálfa. Hver var það sem hélt slíku fram? Svarið birtist fáeinum dögum síðar á bloggsíðu og fékk flugið af vörum David Shuster, fréttalesara MSBC, sem sagði: „Það er komið í ljós að það var Martin Eisenstadt, pólitískur ráðgjafi hjá McCain, en hann gaf sig fram í dag og kvaðst bera ábyrgð á lekanum."

Gallinn var bara sá að Martin Eisenstadt er ekki til. Blogg hans er til en það er uppgerðar-blogg. Hugmyndaveitan sem hann var sagður starfa hjá - Harding Institute for Freedom and Democracy - er einungis vefsíða. Sjónvarpsmyndskeið af honum á YouTube er falsað.

Eisenstadt hefur ekki reynst einhamur því að gabbið um Palin og Afríku var einungis hið síðasta af mörgum háþróuðum tilbúningi sem staðið hefur yfir mánuðum saman. MSNBC, sem var fljót að leiðrétta mistök sín, var hins vegar í félagsskap margra virðulegra fjölmiðla sem gengu í vatnið í þetta skiptið, svo sem The New Republic og The Los Angeles Times.

Á bak við Martin Eisenstadt standa svo tveir alls óþekktir kvikmyndagerðarmenn, Eitan Gorlin og Dan Mirvish, sem segjast hafa búið fyrirbærið til í von um að geta selt sjónvarpsstöðvum þáttaröð sem byggði á þessari persónu.

Þeir harðneita hins vegar að taka á sig nokkra ábyrgð á afleiðingum gabbsins og segja allan skaða sem það hafi valdið í kosningabaráttunni verði að skrifa á slæleg vinnubrögð hinna hefðbundnum fjölmiðla en einkum þó bloggheima. „Með 24 tíma fréttahringrás að fylla grípa þeir allt sem þeir finna,“ hefur The New York Times eftir Eitan Gorlin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert