Vélmenni komst í námuna

Þessi samsetta mynd sýnir níu námamenn af þeim 29 sem …
Þessi samsetta mynd sýnir níu námamenn af þeim 29 sem lokuðust inni í kolanámu í Nýja Sjálandi. Reuters

Tekist hefur að koma fjarstýrðu björgunarvélmenni, eða þjarka, inn í kolanámuna þar sem 29 námamenn hafa verið innilokaðir frá því að sprenging varð í námunni á föstudaginn var. AFP fréttastofan hefur þetta eftir bæjarstjóranum í námabænum.

Tilraunin mistókst því eftir að vélmennið fór inn í göngin komst bleyta í búnaðinn og olli skammhlaupi, að sögn TonyKokshoorn, bæjarstjóra í Grey héraði. Hann upplýsti um þetta eftir samráðsfund með stjórnendum björgunaraðgerðanna.

Vonast hafði verið til að nýta mætti myndavél vélmennisins til að kanna aðstæður í námunni. Óttinn við eldfimt gas og grunur um eldsvoða hafa komið í veg fyrir að björgunarmenn séu sendir inn í námuna.

Kokshoorn sagði að fréttirnar af bilun vélmennisins yllu aðstandendum námamannanna miklum vonbrigðum. Hann sagði að fundur sem haldinn var með aðstandendum hafi verið erfiður því fólk hafði bundið miklar vonir við vélmennið og upplýsingar sem það myndi afla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert