Arababandalagið hefur lagt bann við því að 19 sýrlenskir embættismenn ferðist til annarra arabalanda. Banninu verður því aðeins aflétt ef sýrlensk yfirvöld leyfa alþjóðlegum eftirlitsmönnum að koma inn í landið og fylgjast með mótmælunum í landinu. Eignir þessara embættismanna í arabalöndunum hafa að auki verið frystar.
Meðal þeirra eru Maher al-Assad, sem er bróðir Assads Sýrlandsforseta, og frændi hans. Einnig er um að ræða Rami Makhluf, sem er eigandi stórs fjarskiptafyrirtækis, og yfirmenn í her og leyniþjónustu landsins.
Að auki ákvað Arababandalagið að leyfa einungis helming venjubundinna flugferða til og frá Sýrlandi. Þær takmarkanir ganga í gildi 15. desember.
Þessi skilyrði voru sett fyrr í kvöld, en í dag létust 23 í mótmælum í Sýrlandi. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hvetur til harðra aðgerða gagnvart Sýrlandi og fordæmir það sem það kallar gróf mannréttindabrot.
Skilyrði Arababandalagsins voru tilkynnt eftir fund bandalagsins í Doha, höfuðborg Katar. Forsætisráðherra Katar, Sheikh Hamad bin Jassim al-Thani, hvatti Sýrlendinga til að hleypa eftirlitsmönnum inn í landið.
„Við höfum haft samband við sýrlensk yfirvöld og boðið þeim að koma til Doha og skrifa undir samning um að opna landið fyrir eftirlitsmönnum,“ sagði al-Thani. „Við bíðum eftir svari.“