Eystri landsréttur í Danmörku dæmdi í dag 33 ára gamlan Dana til að greiða danska knattspyrnusambandinu jafnvirði 40 milljóna íslenskra króna í bætur fyrir að hlaupa inn á völlinn í landsleik Dana og Svía árið 2007 og reyna að ráðast á dómara leiksins.
Danska knattspyrnusambandið þurfti að greiða sekt til Knattspyrnusambands Evrópu vegna atviksins. Þá var Dönum gert að leika næsta landsleik í undankeppni Evrópumótsins í Árósum. Við það varð knattspyrnusambandið fyrir miklu tekjutapi.
Danska útvarpið hefur eftir framkvæmdastjóra danska knattspyrnusambandsins að þar á bæ séu menn sáttir við dóminn. Málið snúist um grundvallaratriði og því sé sambandið reiðubúið til að taka upp viðræður við brotamanninn um bótagreiðslurnar.
Héraðsdómur í Kaupmannahöfn hafði áður dæmt manninn í 20 daga fangelsi og til að greiða jafnvirði 19 milljóna íslenskra króna í bætur. Maðurinn áfrýjaði ákvörðun dómsins um skaðabætur en landsréttur tvöfaldaði bótaupphæðina í dag.
Landsleikurinn örlagaríki var leikinn á Parken í Kaupmannahöfn í byrjun júní 2007. Þegar 88 mínútur voru liðnar og staðan var 3:3 dæmdi þýski dómarinn Herbert Fandel vítaspyrnu á Dani. Við það hljóp áhorfandinn inn á leikvanginn og réðst á dómarann. Dómaranum var afar brugðið og flautaði leikinn af.