Enn á ný er hafin leit að Ben Needham sem hvarf fyrir tveimur áratugum á grískri eyju, þá 21 mánaða gamall. Drengurinn var breskur og hvarf af bóndabæ foreldra sinna árið 1991.
Breskir sérfræðingar hefur ásamt fulltrúum grísku lögreglunnar hafið leit að Ben á eyjunni. „Fyrsta athugun fór fram á fimmtudag og þá á því svæði þar sem drengurinn sást síðast. Leitað verður í viku til viðbótar,“ segir talsmaður lögreglunnar. Um nokkuð umfangsmikla aðgerð er að ræða sem m.a. lögreglumenn, slökkviliðsmenn og sjálfboðaliðar taka þátt í. Notast verður við leitarhunda sem og myndavélar við rannsókna.
Yfirvöld í Grikklandi neita að gefa nokkuð upp um rannsókna en breskir fjölmiðlar segja að leitað verði m.a. í ruslahaug við bóndabæinn.
Móðir Bens, Kerry, segir að hún styðji þá ákvörðun að hefja rannsókn að nýju.
„Ég veit í hjarta mínu að þeir munu ekki finna Ben því ég held að hann sé enn á lífi. En ég viðurkenni að ég er nú í fyrsta sinn með örlitlar efasemdir,“ segir hún í samtali við Daily Mirror.