Vígamenn úr hópi talibana náðu að frelsa 243 fanga í árás sem þeir gerðu á fangelsi í norðvesturhluta Pakistans í nótt. Hundruð talibana og annarra skæruliða voru í fangelsinu.
Árásin hófst með gríðarlegri sprengingu við fangelsið sem er í bænum Dera Ismail Khan um miðnætti að staðartíma, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.
Vopnaðir skæruliðar gerðu síðan skotárás með vélbyssum og eldvörpum á fangelsið. Talið er að árásarmennirnir hafi verið um 70 talsins en hluti þeirra var klæddur í lögreglubúninga í árásinni.
Tólf, þar af sex lögreglumenn, létust í árásinni en bardaganum lauk ekki fyrr en eftir þrjár eða fjórar klukkustundir.
Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum náðu 243 fangar að flýja. Þar af eru 30 skæruliðar sem voru dæmdir fyrir aðild að mannskæðum árásum.
Gerðu árás á fangelsi í Pakistan