Forráðamenn skíðasvæða í Coloradoríki í Bandaríkjunum óttast mikla aukningu ferðamanna sem sækja í kannabisefni, en sala þeirra verður gefin frjáls strax á nýju ári. Þeir óttast að „skakkir“ ferðamenn verði til að skemma ímynd skíðasvæðanna sem fjölskylduvæna staði til að sækja.
Í fyrra var samþykkt að afnema refsingar við vörslum og notkun maríjúana í ríkinu og frá og með 1. janúar verður sérstökum verslunum leyft að selja maríjúana til þeirra sem náð hafa 21 árs aldri. Margir ætla að nýta sér þetta til tekjuöflunar og hafa fyrirtæki verið sett á fót sem bjóða upp á sérstakar pakkaferðir. Til dæmis býðst ferðamönnum fyrir 1.200 Bandaríkjadali, jafnvirði 140 þúsund króna, að vera sóttir á hótel sitt á eðalvagni og keyrðir að skíðasvæðinu. Á leiðinni fá þeir „frítt“ maríjúana sem þeir mega reykja í bílnum.
Timothy Vee, eigandi fyrirtækisins Colorado High Life Tours, segist ekki hafa áhyggjur af því að skíðamenn undir áhrifum fari sér að voða. Á hverju skíðasvæði sé til dæmis krá og í áratugi hafi skíða- og snjóbrettafólk stolist til að reykja kannabisvindlinga á skíðasvæðunum. Til að mynda hafi kláfferjur verið afar vinsælar til slíkrar vímuefnaneyslu.
Þó svo ekki sé refsað fyrir notkun maríjúana í ríkinu á það ekki við um almenningsrými. Þannig voru 112 skíðamenn sektaðir í fyrra fyrir að reykja maríjúana á skíðasvæðum ríkisins og 93 höfðu fengið sekt í lok september á þessu ári. Sektin er að minnsta kosti 250 Bandaríkjadalir, tæplega þrjátíu þúsund krónur. Auk þess er viðkomandi rekinn af skíðasvæðinu.
„Colorado er fjölskylduvænn skíðastaður og lögin eru skýr. Það má ekki reykja maríjúana á almannafæri,“ segir Jenn Rudolph, talsmaður skíðasvæðanna. „Forsvarsmenn skíðasvæðanna munu gera það sem þeir þurfa til að fylgja lögunum.““