Flugræninginn reyndist vera aðstoðarflugmaðurinn

Flugræninginn í flugvél Ethiopian Airlines sem var að fara frá Addis Ababa til Rómar í nótt reyndist vera aðstoðarflugmaðurinn í fluginu. Flaug hann vélinni til Genfar í Sviss þar sem hann ætlaði að sækja um hæli þar í landi.

Flugræninginn var handtekinn þegar hann steig út um glugga á flugstjórnarklefanum á reipi. Hann segist hafa notað tækifærið þegar flugstjórinn fór á salernið og tók yfir stjórn flugvélarinnar. Maðurinn er Eþíópi fæddur árið 1983. Hann sagðist óttast um öryggi sitt í heimalandinu og vilji óska eftir hæli í Sviss.

Alls voru 202 um borð í vélinni og sluppu þeir allir heilir á húfi út úr vélinni á flugvellinum í Genf.

Flugræninginn hafði samband við flugturninn í Genf og sagðist vera í vandræðum með vélina og það þyrfti að bæta olíu á hana. Hann bætti síðan við að hann hefði rænt vélinni og fékk hann heimild til lendingar í öryggisskyni. Ítalskar herþotur fylgdu vélinni til lendingar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert