Heyrði af andlátinu á facebook

Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð.
Frá Karlskrona í Suður-Svíþjóð. mbl.is/wikipedia

Foreldrar litlu stúlkunnar, sem var úrskurðuð látin á sjúkrahúsi í Karlskrona í Svíþjóð á miðvikudag, hafa nú loks fengið upplýsingar um að stúlkan sé látin. Svo virðist sem það hafi þó ekki verið lögregla sem tilkynnti þeim fyrst um andlátið, heldur ókunnug kona sem sendi þeim skilaboð í gegnum facebook.

Stúlkan kom ein til Svíþjóðar í fyrra sem flóttamaður frá Palestínu. Framan af fékk hún gott viðurværi, en á verri veg fór aftur á móti þegar ættingja hennar, karlmanni sem hefur verið handtekinn í tengslum við málið, var fengin umsjá hennar í janúar sl.

Hélt að hún væri að ljúga

Foreldrar stúlkunnar búa á Gaza-svæðinu í Palestínu. Eftir að dóttir þeirra kom til Svíþjóðar, hafa þau reynt að komast til Svíþjóðar. 

„Ég hélt að hún væri að ljúga,“ segir faðir stúlkunnar í samtali við Aftonbladet um skilaboðin sem hann fékk í gegnum facebook frá konu, búsettri í Stokkhólmi. Hann segist ekki skilja af hverju lögreglan hafði ekki samband við sig, ekki væri erfitt að finna símanúmerið.

Lögregla segir að það hafi verið forgangsmál að finna fjölskyldu stúlkunnar. Skilaboð sem þessi séu þó aldrei skilin eftir á símsvara síma og að lokum hafi lögregla í Palestínu haft upp á foreldrunum.

Ræddu oft saman í gegnum Skype

Faðir stúlkunnar er 37 ára gamall. Hann segist hafa rætt við dóttur sína síðastliðinn þriðjudag. Þá hafi hún verið glöð og ánægð. „Við töluðum oft saman í gegnum Skype og hún sagði alltaf að hún vildi að við kæmum til Svíþjóðar,“ segir faðirinn í samtali við Aftonbladet.

Hann segist hafa verið í sambandi við félagsþjónustuna og skóla stúlkunnar í Svíþjóð en enginn hafi minnst á að komið hafi tilkynningar sem sneru að illri meðferð á stúlkunni.

Í mars barst tilkynning um að stúlkan væri ein á ferð með tvö lítil börn í stigagangi hússins þar sem stúlkan bjó ásamt fólkinu sem nú hefur verið handtekið. Í nóvember í fyrra barst tilkynning um að stúlkan væri illa klædd miðað við veður, en kalt var úti.

Þá höfðu tveir nágrannar stúlkunnar samband við lögreglu í haust þegar í ljóst kom að stúlkan, sem þá var sjö ára gömul, var ein heima og gætti þar að auki tveggja ára barns og ungbarns.

Frétt Aftonbladet

Frétt mbl.is: Skilin eftir með tvö lítil börn

Frétt mbl.is: Par í haldi vegna stúlkumorðs í Svíþjóð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka