Rigndi braki og líkum

Ættingjar fólks sem var um borð í vélinni bíða á …
Ættingjar fólks sem var um borð í vélinni bíða á flugvellinum í Kuala Lumpur eftir fregnum af ástvinum sínum. AFP

Íbúar í nágrenni staðarins þar sem farþegaþotan hrapaði í Úkraínu segjast hafa heyrt tvær háværar sprengingar. Í kjölfarið hafi rignt braki og líkum. Þetta hefur blaðamaðurinn Noah Sneider, sem staddur er á vettvangi, eftir sjónarvottum. „Ég hef aldrei séð annað eins,“ sagði maður sem tilheyrir hópi aðskilnaðarsinna á svæðinu, við Sneider. „Maður leit niður og sá eyru, fingur og bein.“

Úkraínski herinn hefur nú birt upptöku af því sem hann segir sönnun þess að rússneski herinn hafi fyrirskipað árás á malasísku farþegavélina. Ekki hefur enn verið staðfest að svo sé.

Algjört öngþveiti ríkir á slysstaðnum. Úkraínski herinn fær ekki aðgang því svæðið er undir yfirráðum aðskilnaðarsinna. Rússneska fréttastofan Interfax segir að aðskilnaðarsinnar hafi fundið flugritann, en komið honum í hendur rússneskra yfirvalda, ekki úkraínskra. Ekkert hefur þó fengist staðfest í þeim efnum. Flugritinn geymir m.a. upptökur af síðustu samtökum flugmanna við flugumferðarstjórn.

Brak og lík fólksins sem var um borð í vélinni liggja á víð og dreif. 295 voru um borð. Talið er að allir hafi látist.

Slysstaðurinn er á miðju átakasvæði sem flækir alla björgun og alla rannsókn gríðarlega. 

Úkraínustjórn segir að „vopnaðir hryðjuverkamenn“ beri ábyrgð á hrapi vélarinnar og þeir komi í veg fyrir að herinn komist á svæðið til björgunarstarfa og til að rannsaka vettvanginn. Í frétt Telegraph kemur fram að aðskilnaðarsinnar hafni þessu og segist hafa boðið Úkraínustjórn 2-3 daga vopnahlé.

Ættingjar þeirra sem voru um borð í vélinni eru harmi slegnir. Þeir hafa m.a. komið saman á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Farþegalisti vélarinnar hefur enn ekki verið birtur er talið er 23 Bandaríkjamenn hafi verið um borð og sambærilegur fjöldi Breta.

Alþjóðlega flugmálastofnunin hafnar því að vél Malaysian Airlines hafi verið að fljúga í gegnum svæði sem búiði var að banna flugumferð um.

Frá vettvangi í Úkraínu þar sem Boeing 777X farþegaþota Malaysia …
Frá vettvangi í Úkraínu þar sem Boeing 777X farþegaþota Malaysia Airlines hrapaði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert