Bandaríska sjónvarpskonan Joan Rivers er látin, en hún var 81 árs gömul. Hún fékk hjarta- og öndunarstopp í síðustu viku og var flutt á sjúkrahús í New York þar sem hún lést í dag.
Joan Rivers var vinsæl sjónvarpskona og uppistandari í Bandaríkjunum. Hún var þekkt fyrir að vera bæði kjaftfor og kaldhæðin.
Rivers kom fyrst fram í sjónvarpi 1965 í þættinum The Tonight Show sem Johnny Carson stjórnaði, en hún leit alla tíð á hann sem fyrirmynd sína. Vinslit urðu hins vegar milli þeirra þegar Rivers hóf að stýra eigin þætti, The Late Show, árið 1986. Rivers var fyrsta konan í Bandaríkjunum til að stjórna eignin spjallþætti.
Á síðustu árum hefur Rivers komið fram í sjónvarpi ásamt Melissu, dóttur sinni.
Rivers umgengst mikið ríka og fræga fólkið og var t.d. ein af fjórum Bandaríkjamönnum sem var boðið í brúðkaup Karls Bretaprins og Camillu Parker Bowles árið 2005.
Rivers hefur verið á sjónarsviðinu vestanmegin við Atlantshafið í hálfa öld og haslað sér völl sem skemmtikraftur, rithöfundur, leikkona, leikskáld, handritshöfundur, leikstjóri, þáttastjórnandi og hönnuður. Til að byrja með lagði hún stund á leiklist, en fann sig fyrst fyrir alvöru í því að setja saman gamanmál fyrir míkrafón og svið og ruddi þannig brautina fyrir kvengrínista ásamt Phyllis Diller, Tootie Fields og fleirum. Fyrstu viðkomustaðirnir voru sjúskaðir New York klúbbar og konan sem þar steig á svið var hvorki indæl, né jafn viðfelldin og ímynduð nágrannakona, húmorinn var beittur og dálítið úti á ystu nöf að hætti Lenny Bruce.
Joan Rivers fékk stórt tækifæri sem skemmtikraftur árið 1965 í kvöldspjallþætti Johnny Carsons á sjónvarpsstöðinni NBC og var gestur þáttarins með reglulegu millibili eftir það. Skömmu síðar byrjaði hún að koma fram í Las Vegas og hneyksla náungann upp úr skónum. Hún fékk síðan fasta stöðu sem afleysingastjórnandi "The Tonight Show" í fjarveru Johnny Carson, fyrst allra, og hlaut Emmy-verðlaun fyrir spjallþáttastjórn árið 1997.
Síðustu ár hefur Joan Rivers mikið látið að sér kveða á heimsvísu í hlutverki móður allra tískulögga, tískulöggu dauðans, og velgt fræga fólkinu undir uggum með hárbeittum athugasemdum um spariföt og lífsmáta.