Játningin tekin gild

Lýst var eftir Etan Patz á mjólkurfernu og var hann …
Lýst var eftir Etan Patz á mjólkurfernu og var hann eitt fyrsta barnið sem leitað var að með þeim hætti.

Dómari hefur samþykkt að saksóknari í New York fái að nota játningu karlmanns með mjög lága greindarvísitölu til að ákæra hann fyrir morð á dreng sem hvarf sporlaust árið 1979. Drengurinn, Etan Patz, var sex ára og eitt fyrsta barnið sem lýst var eftir með því að birta nafn og mynd á mjólkurfernu.

Gísli Guðjónsson réttarsálfræðingur var fenginn til að meta trúverðugleika játningar mannsins, Pedro Hernandez.  Verjendur hans telja að játningin hafi verið þvinguð fram og fengu því Gísla til samstarfs.

Hvarf Etans litla vakti heimsathygli en lík hans fannst aldrei.

Hernandez er 53 ára gamall. Hann hefur neitað því að hafa drepið Etan. Verjendur Hernandez hafa haldið því fram að játningin hafi verið fölsk.

Dómarinn sem fjallaði um málið í Manhattan í New York átti ekki að ákveða hvort að játningin væri sönn, aðeins að ákveða hvort að hún hefði verið fengin með lögmætum hætti og hvort  hann hefði skilið hvað hann var að gera er hann afsalaði sér rétti sínum að segja ekkert við yfirheyrsluna.

Dómarinn komst að því að Hernandez hefði gert sér grein fyrir málinu, hann hafi verið meðvitaður og upplýstur. 

Rannsókn á hvarfi Etans hefur verið mjög umfangsmikil og spannar hátt í fjörutíu ár. Rannsóknin náði allt til Ísraels en grunur fór að beinast að Hernandez árið 2012. Hann starfaði í verslun í hverfinu sem Etan bjó í. Etan hvarf er hann var á leið í skólann. 

 Hernandez játaði að hafa myrt drenginn eftir að hafa verið yfirheyrður í sex klukkustundir. Í frétt AP-fréttastofunnar kemur fram að hann hafi af yfirvegun sagt lögreglumönnunum að hann hafi kyrkt Etan í kjallara verslunarinnar. Hann hafi síðan sett drenginn, sem þá var enn á lífi, í plastpoka og svo farið með pokann út og skilið hann eftir í nágrenninu.

„Ég var stressaður, fæturnir á mér titruðu,“ sagði Hernandez m.a. í yfirheyrslunni. „Ég vildi sleppa takinu en ég gat ekki sleppt takinu. Mér fannst eins og eitthvað hefði komið yfir mig.“

Hernandez voru lesin réttindi sín rétt áður en lögreglan fór að taka játninguna upp á myndband. Þá hafði hann þegar játað verknaðinn. Á meðan á yfirheyrslunum stóð hafði hann beðið um að fá að fara en síðan sjálfur samþykkt að halda yfirheyrslunum áfram. 

Fram hefur komið að á níunda áratugnum hafi Hernandez sagt frá því í bænahóp að hann hefði skaðað barn í New York.

Játningin er lykilsönnunargagn í málinu. Lögreglan hefur ekki komið fram með nein önnur bein sönnunargögn gegn Hernandez og verjendur hans segja að slík gögn séu einfaldlega ekki til.

Talið er að kviðdómur vegna málsins verði valinn í janúar og líklega mun hann fá það hlutverk að dæma um hvort að játningin hafi verið sönn eða ósönn.

„Allir þeir sem sjá þessar játningar munu sjá að þegar lögreglan lauk sér af, hafi Hernandez trúað því að hann hafi drepið Etan Patz, en það þýðir ekki að hann hafi í raun og veru gert það,“ hefur AP-fréttastofan eftir verjandanum Harvey Fishbein.

Fishbein segir að Hernandez glími við alvarlega geðröskun og hafi í mörg ár tekið lyf. Geðsjúkdómur hans lýsi sér m.a. þannig að hann hafi ranghugmyndir. Í játningu Hernandez má heyra hann lýsa því að hann sjái stundum látna móður sína.

Greindarvísitala hans er um 70 og því tilheyrir hann 2% þjóðarinnar sem eru með svo lága greindarvísitölu. Verjendur hans segja hann ekki hafa skilið réttindi sín, m.a. þau að hann þyrfti ekkert að segja við yfirheyrslurnar. 

Gísli Guðjónsson.
Gísli Guðjónsson. mbl.is/Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert