Mannréttindasamtök krefjast saksóknar vegna pyntinga sem leyniþjónusta Bandaríkjanna beitti fanga og upplýst er um í nýrri skýrslu bandarískrar þingnefndar. Meðal þeirra sem fjallað er um í skýrslunni er Abu Zubaydah en sumir kvalara hans grétu vegna meðferðarinnar á fanganum.
Abu Zubaydah var í raun tilraunadýr hjá CIA en hann var fyrsti háttsetti al-Qaida liðinn sem var handtekinn eftir 11. september 2001. Hann var jafnframt sá fyrsti sem hvarf á bak við lás og slá leynifangelsa leyniþjónustunnar.
Zubaydah var sá fyrsti sem þurfti að þola svefntruflanir, hljóðpyntingar og vatnspyntingar en þegar þeim er beitt er fanginn látinn liggja á bakinu, klút er haldið fyrir vitum og vatni hellt á klútinn þannig að fanganum finnst hann vera að drukkna.
Fjallað er um pyntingar á Zubaydah í skýrslunni sem birt var í gær. Þar kemur fram að handtaka Zubaydahs í Pakistan í mars 2002 hafi markað upphaf nýrra aðferða sem leyniþjónustan fékk að beita þegar George W. Bush var forseti Bandaríkjanna.
Haldið föngnum í litlum boxum sem minntu á líkkistur
Í skýrslunni er leyniþjónusta Bandaríkjanna borin þungum sökum. Meðal annars um að hafa logið til um hvað færi fram á hennar vegum í leynifangelsum víða um heim.
Má þar nefna að halda föngum innilokuðum í litlum boxum. Koma í veg fyrir að þeir gætu sofið vikum saman, vatnspyntingar, barsmíðar og morðhótanir, nauðgunarhótanir, hlekkjaðir naktir í kæliklefum og svo mætti lengi telja. Margir þeirra sem þurftu að þola þessar pyntingar munu aldrei ná sér andlega.
Á sama tíma og Abu Zubaydah þurfti að þola óbærilegar pyntingar notuðu liðsmenn CIA hann sem réttlætingu fyrir pyntingunum.
Brenna átti líkið ef fanginn myndi deyja við pyntingarnar
Í ágúst 2002, á einum mánuði, þurfti Zubaydah að sæta vatnspyntingum í 83 skipti. Ekki virðast CIA menn hafa verið vissir um að fanginn myndi lifa pyntingarnar af því í skýrslunni kemur fram að búið var að undirbúa hvernig ætti að koma líkinu fyrir ef hann myndi deyja: Það átti að brenna líkið.
Í skýrslunni er vísað í tölvupósta sem gengu á milli hjá CIA. Þar kemur fram að Zubaydah hafi misst meðvitund við slíkar vatnspyntingar. Loftbólur hafi komið út úr opnum munni hans, sem var fullur af vatni, segir í tölvupósti. Þeir sem pyntuðu hann tóku hann upp og hentu honum í gólfið, hetta sett yfir höfuð hans og síðan tekin af honum og honum sýnt box sem minnti helst á líkkistu. Síðan var honum troðið ofan í boxið og lætur þar inni. Frá boxinu heyrðust óp manns sem var fullur örvæntingar og móðursýki.
Helstu ráðgjafar Bush gáfu samþykki fyrir því að vatnspyntingum yrði beitt og fleiri aðferðum sem ítrekað var beitt gegn Zubaydah til þess að niðurlægja hann sem mest.
FBI blöskraði aðferðir CIA
Pyntingarnar fóru fram í Taílandi og í fyrstu var hann yfirheyrður af leyniþjónustumönnum sem og alríkislögreglunni. En fljótlega létu liðsmenn FBI sig hverfa og mótmæltu þeim aðferðum sem CIA beitti við yfirheyrslur yfir Zubaydah.
Þegar vatnspyntingum var fyrst beitt á Zubaydah var hann fyrst hlekkjaður við vegg og hann spurður út í aðgerðir gegn Bandaríkjunum. Þar sem hann sagðist ekki geta sagt þeim neitt tóku þeir hann og hlekkjuðu á bekk, settu klút yfir andlit hans og helltu vatni yfir. Zubaydah náði vart andanum, ældi og missti síðan meðvitund. Eftir þetta fylgdu slíkar pyntingar nokkrum sinnum á dag næstu vikur.
Einhverjum leyniþjónustumönnum sem störfuðu í taílenska leynifangelsinu þótti nóg um og í tölvuskeyti kemur fram að einhverjir þeirra hafi tárfellt og jafnvel kúgast. Pyntingunum var hins vegar haldið áfram þar til fanginn lofaði að segja allt.
Lugu til um stöðu Zubaydah innan al-Qaeda
Hingað til hefur bæði Bush og fleiri bandarískir ráðamenn lýst því yfir að upplýsingarnar sem Zubaydah veitti hafi leitt til þess að aðrir háttsettir al-Qaeda liðar voru teknir höndum. En í skýrslunni kemur fram að Zubaydah hafi verið afar lágt settur innan samtakanna og hafi ekki haft yfir neinum mikilvægum upplýsingum að ræða. Hvort sem það lýtur að uppbyggingu al-Qaeda eða hryðjuverkaáform.
Enn í haldi án ákæru
Nú, meira en tólf árum síðar, er Zubaydah enn fangi í fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantanamo flóa á Kúbu. Hann hefur enn ekki verið ákærður um neinn glæp. Í tölvupósti til yfirmanna CIA frá þeim sem stýrðu yfirheyrslum kemur fram að þeir vilji fá tryggingu fyrir því að Zubaydah fái aldrei að tjá sig opinberlega um hvað þeir séu að gera honum. Mæla þeir með því að honum sé haldið í einangrun það sem eftir lifir.
Meðal þess sem var stundað í leynifangelsum CIA var rússnesk rúlletta til þess að hræða fangana og eins að beita borvélum á þá.
Fangarnir voru niðurlægðir með óþarfa lyfjagjöf, næringu var troðið upp endaþarm þeirra, bein þeirra brotin og einn dó úr ofkælingu.
Að minnsta kosti 26 af þeim 119 föngum sem vitað er að var haldið í leynifangelsum voru saklausir af því sem þeir voru sakaðir um og margir þeirra þurftu að dúsa mánuðum saman í fangelsi. Í skýrslunni eru tekin fjölmörg dæmi um hrottalegar misþyrmingar en einungis er birt brot af skýrslunni sjálfri en hún er um sex þúsund blaðsíður að lengd.