Ekki er útilokað að Jeremy Clarkson muni starfa hjá BBC í framtíðinni. Þetta segir Alan Yentob, listrænn stjórnandi BBC. Hann segir að rétt hafi verið að reka Clarkson en dagurinn hafi enga síður verið sorglegur fyrir BBC.
Yentob sagði einnig að það yrðu vonbrigði ef aðrir stjórnendur Top Gear hættu en þó yrði framleiðslu þáttanna ekki hætt. Clarkson, Richard Hammond og James May hafa stjórnað þættinum Top Gear frá árinu 2003.
Yentob viðurkenndi í samtali við BBC að það væri alveg eðlilegt að Hammon og May myndu íhuga að starfa ekki lengur við gerð þáttarins. „Þeir eru teymi, þeir hafa unnið saman í langan tíma,“ sagði hann.