Nú hefur verið staðfest að 147 háskólanemar hið minnsta hafi fallið í árás liðsmanna hryðjuverkasamtakanna al-Shebab í norðvesturhluta Kenía í dag. Stjórnvöld segja að umsátursástandi á háskólasvæðinu sé lokið en að minnsta kosti 79 aðrir særðust í árásinni.
Vopnaðir menn réðust inn á svæðið fyrir dögun, hentu handsprengjum og hófu vélbyssuhríð í bænum Garissa. Héldu þeir kristnum nemendum en slepptu múslímum. Kenísk stjórnvöld segja að árásarmennirnir hafi verið fjórir og þeir hafi allir fallir í átökum við öryggissveitir. Umsátursástandið stóð yfir í um 16 klukkustundir.
Hermenn létu til skarar skríða gegn árásarmönnunum skömmu fyrir sólsetur en þeir höfðu komið sér fyrir á heimavist háskólanemanna. Þaðan mátti heyra sprengingar og mikla skothríð, að því er AFP-fréttastofan segir frá.
Árásin er sú blóðugasta í Kenía frá því að liðsmenn al-Qaeda frömdu sprengjuárás við bandaríska sendiráðið í Naíróbí árið 1998. Þá létust 213 manns þegar öflug bílsprengja var sprengd þar.