Flytja líkin til Naíróbí

Bráðaliðar sinna nemanda við komuna á sjúkrahús.
Bráðaliðar sinna nemanda við komuna á sjúkrahús. AFP

Lögregluyfirvöld í Úganda eru nú við öllu búin eftir að hafa fengið upplýsingar þess efnis að hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafi í hyggju að ráðast til atlögu þar í landi, með svipuðum hætti og þau gerðu í Kenía í gær, þegar liðsmenn samtakanna myrtu 147 í háskólanum í Garissa.

Unnið er að því að flytja látnu til Naíróbí til auðkenningar, þar sem líkhús Garissa anna ekki fjöldanum. Þá má gera ráð fyrir að útfarir múslima sem létust í árásinni fari fram innan tíðar.

Frásagnir sjónvarvotta þykja gefa til kynna að árásin hafi verið þaulskipulögð og að hún hafi beinst gegn kristnum. Árásarmennirnir byrjuðu á því að skjóta tvo öryggisverði en skutu svo á nemendur, en margir þeirra voru sofandi í herbergjum sínum.

Alls létust fleiri en 20 öryggisverðir í árásinni. Byssumennirnir voru að lokum króaðir af á einni heimavistanna. Fjórir þeirra létust þegar sjálfmorðsvesti þeirra sprungu. Fimmti var handtekinn. Fleiri en 500 nemendum tókst að flýja og hafa þeir fengið áfallahjálp.

Einn nemandi faldi sig í fataskáp í tíu klukkustundir. Faðir hennar ók í fjóra tíma frá Naíróbí þegar hann náði ekki í hana á meðan árásin stóð yfir. Hann sagði í samtali við BBC að hann hefði gert árangurslausa leit að dóttur sinni í líkhúsinu, sjúkrahúsinu og á herflugvellinum. Þegar hann hafði allt að því gefið upp vonina bárust honum skilaboð: „Pabbi hringdu í mig.“

Hann sagði léttinn mikinn, en átti enn eftir að hitta dóttur sína þegar BBC ræddi við hann.

Stjórnvöld hafa sett verðlaun til höfuðs manninum sem þau segja hafa skipulagt árásina, Mohamed Mohamud, fyrrverandi kennara sem nú er talinn dvelja í Sómalíu. Þá hafa þau jafnframt lýst eftir níu öðrum leiðtogum al-Shabab og hvetja almenning til að hafa samband við lögreglu ef til þeirra sést.

Einn nemanda háskólans sem hafði yfirgefið Garissa til að fara í páskafrí þegar árásin var gerð, sagði í samtali við BBC að spenna hefði ríkt milli kristinna nemenda háskólans og harðlínumúslima í bænum. Hún sagði jafnframt að þegar hún hóf nám við háskólann í fyrra hefði hún verið vöruð við því að bera láta sjást í Biblíuna þegar hún færi til kirkju, þar sem ráðist hefði verið á kristna nemendur.

Frétt mbl.is: Blóðugasta árásin í fjölda ára

Frétt mbl.is: Á annað hundrað námsmanna myrtir

Frétt mbl.is: Halda kristnum nemendum

Frétt mbl.is: Tóku fjölda háskólanema í gíslingu

Öryggisfulltrúar fylgja nemanda af heimavist á háskólasvæðinu.
Öryggisfulltrúar fylgja nemanda af heimavist á háskólasvæðinu. AFP
Öryggissveitir á vettvangi, skömmu eftir að umsátrinu lauk.
Öryggissveitir á vettvangi, skömmu eftir að umsátrinu lauk. AFP
Yfirvöld hafa heitið þeim verðlaunum sem geta gefið upplýsingar um …
Yfirvöld hafa heitið þeim verðlaunum sem geta gefið upplýsingar um Mohamed Mohamud. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka