Ríkisstjórn jafnaðarmanna undir forsæti Helle Thorning-Schmidt nýtur stuðnings meirihluta danskra kjósenda og hefur það ekki gerst síðan í nóvember 2013. Danir kjósa sér nýtt þing 18. júní.
Afar mjótt er á munum þar sem bláa blokkin svonefnda, hægri flokkarnir, nýtur stuðnings 49,1% kjósenda, samkvæmt könnun Voxmeter sem birt er í dag. Þetta er talsverð breyting á viku því þá studdu 54,3% kjósenda bláu blokkina en 45,6% rauðu blokkina.
Thorning, fyrsti forsætisráðherrann úr röðum kvenna í sögu landsins, myndaði stjórn 2011 með Sósíalíska þjóðarflokknum, SF og flokki Radíkala, RV, sem er miðjuflokkur. Einnig naut stjórnin að jafnaði stuðnings Rauðgrænu fylkingarinnar á þingi þar til í febrúar 2013.
Enn syrti í álinn ári síðar þegar SF yfirgaf stjórnina til að mótmæla sölu á hlutabréfum í ríkisorkufélaginu DONG til fjármálarisans bandaríska, Goldman Sachs. Flokkurinn varði þó stjórnina falli á þingi, samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum Morgunblaðsins.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Venstre, nýtur ekki mikilla vinsæla meðal annars vegna ummæla sem hann lét fall nýverið um fólk á atvinnuleysisbótum. En hann vill meina að það geri lítið til þess að verða sér úti um vinnu vegna þess hversu lítill munur er á lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum.
Thorning-Schmidt tilkynnti á miðvikudag að kosningarnar yrðu haldnar þann 18. júní.