Átti í ástarsambandi við strokufanga

Lögreglan í New York stendur fyrir umfangsmikilli leit að strokuföngunum …
Lögreglan í New York stendur fyrir umfangsmikilli leit að strokuföngunum tveimur. AFP

Konan sem talin er hafa aðstoðað tvo menn við að strjúka úr fangelsi í New York fyrr í þessum mánuði, er sögð hafa átt í ástarsambandi við annan manninn. CBS-news greinir frá þessu í dag.

Konan var handtekin stuttu eftir flótta mannanna, grunuð um að hafa aðstoðað þá en hún er starfsmaður í saumastofu í fangelsinu þar sem fangarnir unnu. Fangarnir tveir höfðu aðgang að verkfærum sem þeir notuðu við flóttann og er talið að hún hafi útvegað þeim þau. 

Rannsakar lögreglan nú hversu mikil þátttaka hennar var í flóttanum. Mennirnir sátu báðir inni fyrir morð og eru taldir afar hættulegir. Hafa þeir hvorugir fundist þrátt fyrir umfangsmikla leit. 

Heimildarmaður CBS segir að mennirnir hafi gert samkomulag við konuna áður en þeir struku, um að þeir myndu myrða eiginmann konunnar um leið og þeir kæmust út. Fulltrúi ríkissaksóknara New York-ríkis vildi ekki staðfesta þessar sögusagnir. 

Í yfirheyrslum greindi konan frá því að hún hafi ætlað að sækja mennina þegar út væri komið, og koma þeim í öruggt skjól. Vegna kvíðakasts sem hún fékk, fór hún hins vegar á spítala í staðinn og gat því ekki aðstoðað þá. 

Sjá frétt mbl.is: Strokufangarnir gætu hafa fengið aðstoð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert