„Einu sinni var ég flóttamaður“

Pione Sisto kom sem flóttamaður til Danmerkur og skoraði sigurmarkið …
Pione Sisto kom sem flóttamaður til Danmerkur og skoraði sigurmarkið í leik u21 landsliðsins í gær. Mynd/Twitter

Mikið hefur verið rætt um málefni flóttamanna og innflytjenda í kosningabaráttunni í Danmörku en gengið er til kjörklefanna í þingkosningunum í dag. 

Í framboði eru meðal annars flokkar sem vilja herta innflytjendastefnu og hafa verið sakaðir um hatur í garð þeirra. Sósíaldemókratar hafa einnig verið gagnrýndir fyrir að hafa reynt að sækja fylgi til þerra með slagorðum á borð við: „Ef þú kemur til Danmerkur, þá verður þú að fá þér vinnu.“

Nú á kjördag hefur myndast stór grasrótarhreyfing á netinu þar sem fjöldi fólks sem kom til Danmerkur sem flóttamenn segja sögu sína. Þeir notast á samfélagsmiðlum við kassamerkið „EnGangVarJegFlygtning“ sem þýðir „Einu sinni var ég flóttamaður.“

Grasrótarhreyfingin hófst á því að frambjóðandi flokksins Radikale Venstre birti mynd af föður sínum haldandi á skilti með þessu kassamerki en fyrir ofan stóð: „Í dag er ég kennari.“ Fleiri hafa bæst í hópinn. Meðal annars skrifar ein: „Í dag er ég verkefnastjóri hjá danska hernum. Einu sinni var ég flóttamaður.“

Á meðal þeirra sem tekið hafa þátt í hreyfingunni eru frægir íþróttamenn. Svo stór varð hreyfingin að á forsíðu Extrabladet mátti í dag sjá stóra mynd af knattspyrnumanninum Pione Sisto, sem skoraði sigurmarkið fyrir u21 árs lið Danmerkur á Evrópumeistaramótinu sem stendur nú yfir. Við myndina stendur: „Í gær skoraði ég sigurmarkið fyrir Danmörk. Einu sinni var ég flóttamaður.“

Samira N. Amini, sem birti fyrstu myndina með kassamerkinu segist hafa fengið hugmyndina sjálf en grunur lék á um að um væri að ræða vel útspekúleraða PR-herferð. „Þetta var 100% mín hugmynd. Ég ræddi þetta stuttlega við meðframbjóðendur mína og nokkra háskólanema,“ segir Amini í samtali við Aftenposten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka