Lögreglan í New York segir að mögulega hafi sést til fanganna tveggja sem sluppu úr fangelsi í fylkinu fyrir tveimur vikum. Er hún nú með ábendingu þess efnis til rannsóknar, að því er fram kom í stuttri tilkynningu sem hún sendi frá sér í kvöld.
Stokufangarnir ganga enn lausir og er fjöldi hermanna og rannsakenda sem leitar þeirra.
Lögreglan segir að ábendingar hafi borist um að mennirnir hafi verið á ferli í bænum Erwin, sem er í um 400 mílna fjarlægð frá fangelsinu, þaðan sem þeir sluppu. Vitni segist hafa séð til þeirra í bænum þann 13. júní síðastliðinn.
Joyce Mitchell, sem starfaði sem saumakona í fangelsinu, hefur verið ákærð fyrir að hafa aðstoðað fangana tvo. Hún er sökuð um að hafa smyglað verkfærum til fanganna. Þeir Richard Matt og David Sweat notuðu verkfærin til þess að brjótast út úr fangelsinu og hefur leit staðið yfir af þeim í tvær vikur, eins og áður sagði. Rannsókn málsins hefur beinst að Mitchell eftir að í ljós kom að hún ætti mögulega í ástarsambandi við Matt.
Mennirnir sátu báðir inni fyrir morð. Sweat var að afplána lífstíðarfangelsisdóm fyrir að skjóta lögreglumann árið 2002. Eftir að hafa skotið manninn ók hann yfir hann á bíl sínum.
Matt var dæmdur fyrir mannrán og morð. Hann hélt manninum í 27 klukkustundir og er hann neitaði að borga lausnargjald var hann drepinn.
Frétt mbl.is: Bað strokufangana að myrða eiginmanninn