Joyce Mitchell, fangelsisstarfsmaðurinn sem aðstoðaði tvo dæmda morðingja við að flýja úr fangelsi í New York, smyglaði verkfærum til þeirra inn í fangelsið í hamborgarakjöti. Þetta segir saksóknarinn í málinu.
Frétt mbl.is: Hvernig gat hún gert þetta?
Mitchell aðstoðaði fangana tvo, Richard Matt og David Sweat, við að sleppa. Þeir eru enn á flótta.
Saksóknarinn sagði í sjónvarpi í gærkvöldi að Mitchell hefði falið skrúfjárn og sagarblöð í hamborgarakjöti sem hún svo setti í frysti á verkstæðinu í fangelsinu þar sem hún starfaði. Fangavörður færði föngunum svo hamborgarana. Þetta kom fram í þættinum Good Morning America.
Fangavörðurinn Gene Palmer hefur enn ekki verið ákærður vegna málsins. Hann segist ekki hafa vitað að verkfæri hafi verið falin inni í hamborgurunum. Mitchell heldur því einnig fram að Palmer hafi verið grunlaus. Hins vegar mátti hann ekki, samkvæmt reglum fangelsisins, færa mönnunum matinn.
Matt var að afplána 25 ára dóm fyrir að ræna manni og berja svo til bana árið 1997. Sweat var að afplána lífstíðardóm fyrir að myrða lögreglumann árið 2002. Þeir sluppu úr fangelsinu 6. júní.
Mitchell hefur viðurkennt að hafa haft samfarir við annan fangann á verkstæði fangelsisins.