Þúsund menn leita tveggja

Þetta er ein umfangsmesta leit að strokuföngum í sögu Bandaríkjanna.
Þetta er ein umfangsmesta leit að strokuföngum í sögu Bandaríkjanna. AFP

Rúmlega þúsund lögreglumenn taka þátt í leitinni að strokuföngunum Richard Matt og David Sweat en í dag eru tuttugu dagar síðan þeir sluppu úr Cl­int­on-fang­els­inu í Dannemora í New York fylki Bandaríkjanna. Það hefur komið yfirvöldum á óvart hversu lengi fangarnir hafa farið huldu höfði en vanalega nást fangar sem sleppa innan við sólarhring síðar. 

Gert er ráð fyrir því að leitin kosti um eina milljón Bandaríkjadali á dag, eða um 132 milljónir íslenskra króna. Fjöldi þeirra sem tekur þátt í leitinni hefur rúmlega tvöfaldast síðan hún hófst 6.júní en þá tóku 440 lögreglumenn þátt í leitinni. Leitarsvæðið er um 200 ferkílómetrar.

Lögregla byggir þó á tiltölulega fáum vísbendingum í leit sinni. Nokkur vitni hafa haft samband við lögreglu vegna grunsamlegra mannaferða, t.d. á lestarteinum í  smábænum Friends­hip í Alleg­any-sýslu, ná­lægt Penn­sylvan­íu. Mennirnir eiga einnig að hafa sést nálægt bænum Erw­in, sem er rétt hjá ríkismörkum New York og Penn­sylvan­íu.

Lögregla hefur ekki staðfest að um strokufangana hafi verið að ræða í þeim tilvikum. Eina sem hefur verið staðfest er að erfðaefni úr að minnsta kosti öðrum fanganum fannst í veiðikofa í um 30 kílómetra fjarlægð frá fangelsinu. Brotist hafði verið inn í kofann sem stendur í skóglendi nálægt bænum Owls Head.

En hvað gerðist?

Flótti fanganna vakti strax athygli, ekki síst vegna þess að fangelsið sem um ræðir er rammgert og hýsir stórhættulega glæpamenn. Óhætt er að segja að Matt og Sweat séu meðal þeirra en þeir eru báðir morðingjar. Til þess að brjótast út úr fangelsinu notuðu mennirnir ýmis verkfæri og nú hefur komið í ljós að fangelsisstarfsmennirnir Joyce Mitchell og Gene Palmer smygluðu verkfærum til fanganna með hamborgarakjöti.

Matt og Sweat tókst að komast í gegnum vegg í klefa sínum, sem er m.a. styrktur með járni og komast inn í loftræstigöng. Þar þurftu þeir að brjóta niður vegg, saga í gegnum þykka lögn, skríða eftir henni, og saga enn eitt gatið í vegg. Loks komust þeir upp um ræsi fyrir utan veggi fangelsisins.

Fljótlega eftir að flótti fanganna kom upp þótti augljóst að þeir hafi fengið einhverskonar hjálp við flóttann. Joyce Mitchell var fljótlega boðuð í yfirheyrslu og hefur nú komið í ljós að hún aðstoðaði fangana, en Mitchell starfaði á saumastofu fangelsisins.

Starfsmenn fangelsisins bakvið lás og slá

Saksóknarar greindu frá því að hún hafi átt í ástarsambandi við annan fangann eða jafnvel báða, eitthvað sem Mitchell neitaði fyrst um sinn. Hún játaði þó fljótlega aðild sína að málinu og að hún hafi ætlað að hitta fangana fyrir utan fangelsismúrana til þess að sækja þá á bíl eftir flóttann. Hún hætti þó við það og lagðist inn á sjúkrahús í staðinn. Mitchell hefur nú verið ákærð fyrir þátttöku sína í flóttanum og er nú í varðhaldi lögreglu. Sama á við um Gene Palmer sem færði föngunum hamborgarakjötið sem innihélt verkfærin. Fyrst um sinn sagðist hann ekki hafa vitað um verkfærin en hefur nú viðurkennt að hafa aðstoðað fangana áður og veitt þeim sérmeðferð í skiptum fyrir málverk og ýmsar upplýsingar um aðra fanga. Hann heldur því enn fram að hann hafi ekki vitað um verkfærin.

Engar útskýringar hafa hins vegar borist á því af hverju mönnunum var fært hamborgarakjöt inn í klefa sína.

Svaf hún hjá þeim báðum?

En fangarnir eru horfnir og eftir sitja fangelsisstarfsmennirnir sem aðstoðuðu þá, bakvið lás og slá. Mál Joyce Mitchell hefur vakið jafnvel meiri athygli heldur en flóttinn sjálfur. Rannsókn málsins beindist fljótt að henni eftir að í ljós kom að hún hafi mögulega átt í óviðeigandi sambandi við fangana.

Á blaðamannafundi fimm dögum eftir flóttann sagði saksóknari í málinu að Mitchell hafi heillast að öðrum fanganum, Matt, og jafnvel átt í ástarsambandi við hann. „Hún hélt að þetta væri ást,“ sagði hann. Ellefu dögum eftir flóttann staðfesti saksóknari að Mitchell hafi beðið menn­ina um að myrða eig­in­mann sinn, Lyle Mitchell, sem einnig starfar í fang­els­inu. Mitchell neitaði þó fyrst um sinn að hafa stundað kynlíf með föngunum.  

Í viðtali við fréttastofuna NBC greindi Lyle Mitchell frá því að eiginkona hans hafi sagt að Matt hafi nokkr­um sinn­um reynt að kyssa hana en ekkert meira hafi gerst á milli þeirra. Í viðtalinu sagðist Lyle Mitchell trúa því að eig­in­kona hans hafi sýnt Matt „ör­litla vænt­umþykju“ en að ekk­ert kyn­ferðis­legt hafi gerst á milli þeirra. Það getur þó hafa breyst en í síðustu viku sagði saksóknari í málinu hinsvegar frá því að Mitchell hafi viðurkennt að hafa stundað kynlíf með Matt á saumastofunni sem þau unnu á saman.

Þeir sem fylgjast með málinu urðu því heldur betur hissa nokkrum dögum seinna þegar að fyrrum fangi í fangelsinu kom í viðtal við m.a. New York Post og CNN og lýsti því yfir að Mitchell hafi stundað kynlíf með David Sweat, þ.e. hinum strokufanganum „fjórum sinnum í viku“ á saumastofunni. Lögfræðingur Mitfchell hefur ekki viljað tjá sig um þessar ásakanir.

En hvað sem gerðist á milli Mitchell og fanganna tveggja þá er augljóst að án hennar hefðu þeir ekki sloppið út. Mitchell, áður saumakona í fangelsi, er nú orðin heimsfrægur glæpamaður og mun líklega eyða næstu árum í fangelsi. Líf hennar verður aldrei samt.

Lögreglumenn að störfum í Mountain View í New York. M.a. …
Lögreglumenn að störfum í Mountain View í New York. M.a. þar er mannanna leitað. AFP
AFP
Gene Palmer hefur verið ákærður fyrir aðild sína að málinu. …
Gene Palmer hefur verið ákærður fyrir aðild sína að málinu. Hann á að hafa aðstoðað fangana. AFP
Richard Matt er til hægri og David Swewat til vinstri.
Richard Matt er til hægri og David Swewat til vinstri. AFP
Yfir þúsund lögreglumenn taka þátt í leitinni.
Yfir þúsund lögreglumenn taka þátt í leitinni. AFP
Joyce Mitchell skartar hér fangabúning í fylgd lögreglumanna.
Joyce Mitchell skartar hér fangabúning í fylgd lögreglumanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert