Strokufanginn David Sweat, sem leitað hefur verið að síðustu þrjár vikurnar, var skotinn af ríkislögreglumanni í New York-fylki í Bandaríkjunum í kvöld. Sweat, sem er 35 ára gamall, er nú í haldi lögreglunnar, en hann lifði skotið af.
Fyrir tveimur dögum var Richard W. Matt, sem strauk ásamt Sweat úr hámarksgæslufangelsi, skotinn til bana af alríkislögreglumönnum. Um 1.300 lögreglumenn leituðu að Sweat í dag, auk þess sem notast hefur verið við þyrlur og flugvélar, hundahópa og fleira í leitinni.
Þeir sluppu úr Clinton-fangelsinu fyrir rúmlega þremur vikum og hafa um þrjú þúsund lögreglumenn tekið þátt í leitinni að þeim síðan þá.
Til þess að brjótast út úr fangelsinu notuðu mennirnir ýmis verkfæri og nú hefur komið í ljós að fangelsisstarfsmennirnir Joyce Mitchell og Gene Palmer smygluðu verkfærum til fanganna með hamborgarakjöti.
Matt og Sweat tókst að komast í gegnum vegg í klefa sínum, sem er meðal annars styrktur með járni, og komast inn í loftræstigöng. Þar þurftu þeir að brjóta niður vegg, saga í gegnum þykka lögn, skríða eftir henni og saga enn eitt gatið í vegg. Loks komust þeir upp um ræsi fyrir utan veggi fangelsisins.