Ótrúlegir flóttar frá ómögulegum stöðum

Á tímabili tóku 1.300 lögreglumenn þátt í leitinni að David …
Á tímabili tóku 1.300 lögreglumenn þátt í leitinni að David Sweat og Richard Matt. AFP

Fangelsi eru yfirleitt hönnuð þannig að erfitt sé að sleppa úr þeim. Þrátt fyrir það ná fangar aftur og aftur að sleppa út úr þeim, hvort sem það er með dramatískum þyrluævintýrum eða einfaldlega með því að sleppa í gegnum pinulitla matarrifu. 

Á laugardaginn slapp mexíkóskur eiturlyfjabarón úr fangelsisklefa sinn í gegnum göng. Aðeins er rúmur mánuður síðan tveir dæmdir morðingjar notuðu verkfæri til þess að brjóta sér leið út úr fangelsi í New York ríki í Bandaríkjunum. Eins og frægt er orðið brutu fangarnir niður stálvegg og komust út í gegnum völundarhús pípna og súlna áður en þeir komust út í gegnum holræsi.

Fangarnir voru lausir í um þrjár vikur sem er nokkuð langur tími miðað við strokufanga í Bandaríkjunum. En á endanum náðust þeir, annar þeirra Richard Matt, var skotinn til bana af lögreglu en hinn, David Sweat náðist lifandi.

Flótti þeirra Matt og Sweat þykir eins og í kvikmynd en hann er ekki eini dramatíski flóttinn úr fangelsi sem vitað er af.

Göng með ljósi, loftræstikerfi og mótorhjóli

Eins og sagt var frá um helgina slapp Joaquin „El Chapo“ Guzman úr Altiplano-fang­elsinu í Mexíkó á laugardaginn. En það var ekki í fyrsta skipti sem hann sleppur úr fangelsi en árið 2001 slapp Guzman úr öryggisfangelsi í Mexíkó í þvottakörfu. Það tók hvorki meira né minna en þrettán ár að ná honum en ekki náðu fangelsisyfirvöld að halda honum lengi.

Á laugardaginn skellti Guzman, sem kallaður er „sá stutti“ sér í sturtu í fangelsinu. Þaðan náði hann að skríða út í gegnum göng og hefur ekki sést til hans síðan. Talið er að göngin hafi verið gerð sérstaklega fyrir hann.

Göngin voru ekki bara einhver hola ofan í jörðina heldur göng með ljósum, loftræstingu og mótorhjóli sem líklega var notað til þess að fjarlægja mold á meðan uppgreftinum stóð og flytja verkfæri.

Opið inn í göngin er 50x50 sentímetrar að stærð. Það var síðan tengt við göng sem náðu rúmlega tíu metra ofan í jörðina. Hægt er að komast í göngin með stiga en þau eru 1,7 metrar á hæð og 70 sentímetrar að breidd. Það hefur hentað Guzman ágætlega en hann er 168 sentímetrar á hæð og fær hann þaðan gælunafnið „sá stutti“.

Göngin voru tæplega tveggja kílómetra löng og náðu inn í hálfbyggt hús. Hvert hann fór þaðan vita fáir.

Sótti eiginmanninn á þyrlu

Í maí 1986 átti sér stað ótrúlegur flótti úr fangelsi í París og var hann að miklu leyti skipulagður af eiginkonu strokufangans, Nadine Vaujour. Michael Vaujour, hafði verið dæmdur í fangelsi fyrir tilraun til manndráps og vopnað rán. Einn daginn komst hann upp á þak fangelsisins með því að ógna fangavörðum með nektarínum sem hann hafði málað til þess að líta út eins og handsprengjur. Eiginkona hans sótti hann á þak fangelsisins í þyrlu en hún hafði farið í þyrlukennslu sérstaklega fyrir þetta tilefni. Nadine Vaujour lenti þyrlunni á fótboltavelli í nágrenninu og þaðan keyrðu þau í burtu.

Fjórum mánuðum síðar var eiginkonan handtekin í Suðvestur-Frakklandi en daginn eftir var eiginmaðurinn skotinn í höfuðið þegar hann reyndi að ræna banka. Michael lifði af og var sleppt úr fangelsi árið 2003 og tveimur árum seinna gaf hann út bók þar sem hann sagði frá flóttanum. Nadine var í fangelsi í sextán mánuði.

Flúði sjálfur í þyrlu og sótti síðan félagana

Vaujour-hjónin eru þó ekki ein um það að hafa notað þyrlu við fangelsisflótta í Frakklandi. Pascal Payet notaði þyrlu í flótta, ekki einu sinni heldu þrisvar.

Fyrsta skiptið var þegar hann flúði fangelsi í Luynes árið 2001. Tveimur árum seinna, þegar Payet var enn laus, hjálpaði hann föngum úr sama fangelsi að sleppa með þyrlu. Payet náðist á endanum en fjórum árum seinna slapp hann enn og aftur, þá með þyrlu sem hafði verið rænt af fjórum vinum hans með flugstjóranum um borð. Payet og félagar hans flúðu og flugstjórinn hélst ómeiddur. Á endanum náðist Payet á Spáni.

Drukknuðu við ótrúlegan flótta

Alcatraz-fangelsið nálægt San Fransisco í Kaliforníu í Bandaríkjunum er alræmt fyrir staðsetningu sína  Fangelsið var byggt á lítilli eyju í San Fransisc-flóa á síðustu öld og var tilgangur þess að halda hættulegum föngum í öruggu varðhaldi enda umkringt vatni. Enginn möguleiki var á að sleppa töldu hönnuðir fangelsisins. En samt var það gert.

Árið 1962 útbjuggu Frank Morris og bræðurnir John og Clarence Anglin brúður, með mannshári, til þess að plata fangaverði á næturvakt. Mennirnir settu brúðurnar í rúmin sín og sluppu út. Þeir notuðu heimagerðan bor til þess að stækka loftræstiholur og náðu þeir að troða sér þannig út í „frelsið“.

Þaðan klifruðu þeir niður niðurfallsrör á norðurenda fangelsisins og ofan í vatnið. Mennirnir notuðu regnkápur til þess að búa til björgunarvesti og flatbotna fleka til þess að aðstoða þá þegar í vatnið var komið.

Öllum þessum áratugum síðar liggur ekki fyrir hvort  mennirnir hafi komist í land á lífi en ekki hefur sést tangur eða tetur af þeim síðan þeir sluppu. Mennirnir eru enn taldir týndir og er gert ráð fyrir því að þeir hafi allir þrír drukknað. Lík mannanna eru enn ófundin en fangelsinu var lokað ári seinna.

Smeygði sér út um pínulitla matarrifu

Choi Gab-bok hafði nægan tíma að drepa í fangelsisklefa sínum en hann var dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir rán. Choi stundaði jóga í fangelsinu og var orðinn mjög góður. Sá hæfileiki hjálpaði honum að sleppa úr fangelsi í Daegu í Suður-Kóreu árið 2012.

Eitt kvöldið beið Choi eftir því að fangaverðirnir sofnuðu áður en hann tróð sér út um matarrifu á klefahurðinni. Til þess að setja hlutina í samhengi má segja frá því að Choi var um 165 cm að hæð og vóg 52 kíló. Matarrifan var um 45 cm á breidd og 15 cm á hæð.

Choi bar áburð á sig til þess að hjálpa sér að smeygja sér í gegnum rifuna. Það virkaði og Choi var frjáls maður en aðeins í sex daga. Þá var hann handtekinn að nýju og færður í klefa með minni matarrifu.

Fréttaskýring CNN. 

Richard Matt og David Sweat.
Richard Matt og David Sweat. AFP
Joaquin Guzman Loera sést hér þegar hann var handtekinn þann …
Joaquin Guzman Loera sést hér þegar hann var handtekinn þann 22. febrúar í fyrra en hann er aftur flúinn úr fangelsi. AFP
Pascal Payet notaði þyrlu við fangelsisflótta þrisvar.
Pascal Payet notaði þyrlu við fangelsisflótta þrisvar. Skjáskot af Youtube
Alcatraz-fangelsið í San Francisco-flóa. Þaðan syntu mennirnir en talið er …
Alcatraz-fangelsið í San Francisco-flóa. Þaðan syntu mennirnir en talið er að þeir hafi drukknað. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
Fanginn komst út úr klefa sínum í gegnum litla matarrifu.
Fanginn komst út úr klefa sínum í gegnum litla matarrifu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert