Námsmenn uggandi vegna hótunar

Háskólinn í Lundi í Svíþjóð.
Háskólinn í Lundi í Svíþjóð. Ljósmynd/Johannes Jansson-norden.org

Námsmenn við Háskólann í Lundi í Svíþjóð er uggandi eftir að hótun var birt á spjallforritnu Jodel, sem margir námsmenn nota. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu. Skólayfirvöld segja að skólinn verði lokaður á morgun.

Þetta kemur fram í sænskum fjölmiðlum nú í kvöld.

Skilaboðin sem voru birt eru svohljóðandi:

„Sum ykkar eru í lagi. Þið skuluð ekki fara í háskólann á morgun ef þið eruð í Lundi. Skoðið fréttirnar í fyrramálið.“

Fram kemur á vef Dagens Nyheter að margir nemendur hafi séð skilaboðin. Háskólanemi segir að þau séu hrollvekjandi. Hann segir ennfremur að margir séu uggandi og viti ekki hvort þeir eigi að fara í skólann á morgun. 

Á vef sænska ríkisútvarpsins segir, að lögreglan sé með málið í rannsókn, en verið sé að kanna hvort um raunverulega hótun sé að ræða eða hrekk. Hún biður fólk um að halda ró sinni. Sænska ríkisútvarpið segir að fleiri lögreglumenn hafi verið kallaðir á vakt í kvöld vegna málsins. 

Jodel gerir fólki kleift að senda nafnlaus skilaboð til annarra sem eru í næsta nágrenni. 

Lögreglan segir að tilkynning verði birt á heimasíðu lögreglunnar berist nýjar upplýsingar. 

Frétt á vef SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert