Bretar munu hvetja til þess að Evrópusambandið og aðildarlönd þess hætti að skattleggja túrtappa og aðrar hreinlætisvörur fyrir konur sem lúxusvörur, en ekki nauðsynjavörur. Þetta segir David Gauke, vara fjármálaráðherra í Bretlandi.
Ummæli hans komu eftir að undirskriftasöfnun fór í gang undir heitinu „hættum að skattleggja blæðingar.“ (Á ensku er um skemmtilegan orðaleik að ræða - „Stop taxing periods. Period.“) Söfnuðust 252 þúsund undirskriftir og umræður á þinginu sýndu að mikill stuðningur var við þessar hugmyndir og að gera þessar vörur undanþegnar virðisaukaskatti.
Þingkona Verkamannaflokksins, Paula Sherriff, orðaði það svo að virðisaukaskattur (e. VAT) væri í raun píkuskattur (e. vagina added tax). „Skattur á konur, klárt og augljóst,“ sagði Sherriff.
Gauke sagði í framhaldinu að hann myndi vinna málinu stuðnings hjá Evrópusambandinu.
Í dag eru dömubindi, túrtappar og aðrar slíkar hreinlætisvörur með 5% virðisaukaskatti. Ekki er hægt að lækka hlutfallið án samþykkis frá hinum 28 aðildarríkjum sambandsins. Árið 2000 var skatturinn lækkaður úr 17,5%, en reglur Evrópusambandsins bönnuðu að skatturinn væri alveg afnuminn.
Fyrr í þessum mánuði lækkuðu Frakkar virðisaukaskatt á slíkar vörur úr 20% niður í 5,5%.