Gíslatökumaður handtekinn í Wisconsin

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Maður tók fólk í gíslingu í borginni Neenah í Wisconsin í Bandaríkjunum fyrir stundu. Lögregla á staðnum hefur beðið íbúa í 400 metra radíus við ákveðna götur í borginni um að halda sig frá gluggum og fara í kjallara ef mögulegt er. Fjölmiðlar á staðnum halda því fram að gíslataka sé í gangi í mótorhjólaverkstæðið Eagle Nation Cycles.

Að sögn lögreglu gekk maður inn í búðina og hóf skothríð. Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsi í nágrenninu hafa tveir verið fluttir þangað af vettvangi.

Frétt Fox News. 

Uppfært kl 18:28

Í frétt Fox 11 News er vitnað í borgarstjóra Neenah sem segir manninn enn í búðinni en gíslarnir eru komnir í kjallara verkstæðisins. Að minnsta kosti 30 skotum hefur verið skotið. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand þeirra sem voru fluttir á sjúkrahús af vettvangi.

Sérsveit lögreglu er á staðnum.

Því er haldið fram á Twitter að í gangi séu viðræður á milli lögreglu og gíslatökumannsins. Sumir halda því fram að stutt sé í að gíslatökumaðurinn gefist upp.

Uppfært kl 18:53

Að sögn borgarstjóra Neenah er tveimur haldið í gíslingu í kjallara verkstæðisins. Hús í nágrenninu hafa verið rýmd og er fólk í allt að 400 metra fjarlægð beðið um að halda sig innandyra. 

Uppfært kl 18:59

Samkvæmt fréttasíðunni WBAY.com hefur gíslatökumaðurinn gefist upp og er í haldi lögreglu. Aðrir miðlar halda því einnig fram á Twitter.

Neenah er í um 160 km fjarlægð frá Milwaukee.
Neenah er í um 160 km fjarlægð frá Milwaukee. Google Maps
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert