Öflugur jarðskjálfti í Afganistan

Fjallgarður í Pakistan.
Fjallgarður í Pakistan. AFP

Jarðskjálfti upp á 6,2 skók Norðaustur-Afganistan nú fyrir skömmu, um miðnætti að staðartíma, nálægt landamærunum að Pakistan og Tadsjikistan. 

AFP segir skjálftann hafa átt upptök sín á 203,5 kílómetra dýpi um 280 kílómetra norðaustan við höfuðborgina Kabúl um klukkan 19:14 að íslenskum tíma.

Byggingar í höfuðborg Pakistans, Islamabad, svignuðu að sögn blaðamanns AFP og notendur Twitter í Nýju-Delí í Indlandi segjast hafa fundið fyrir honum. Í október skók jarðskjálfti upp á 7,5 bæði Afganistan og Pakistan. Þá létust hátt í 400 manns og vakti skjálftinn minningar um skjálfta upp á 7,6 árið 2005 sem varð yfir 75 þúsund manns að bana og eyðilagði heimili um 3,5 milljóna.

Jarðskjálftar verða reglulega í Afganistan, sérstaklega í Hindu Kush-fjallgarðinum sem liggur í nágrenni móta Evrasíu- og Indlandsflekans.

Í apríl og maí létust 8.900 manns í sterkum skjálftum í Nepal.

Uppfært 20:53

Engar fregnir hafa borist frá Afganistan af skemmdum eða slysum á fólki vegna skjálftans  en í það minnsta 17 slösuðust í borginni Peshawar í Pakistan að sögn borgarstjórans Arbab Mohammad Asim.

Fréttamaður AFP segir skjálftann hafa enst í 30 sekúndur og að íbúar í Kabúl hafi hlaupið út í kalda nóttina af heimilum sínum vegna ótta við eftirskjálfta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert