Líkur á að Ríki íslams beri ábyrgð

Lögregla hefur girt svæðið af.
Lögregla hefur girt svæðið af. AFP

Miklar líkur eru á því að Ríki íslams beri ábyrgð á sprengingu í hjarta Sultanahmet hverfisins í Istanbúl í morgun. Reuters segir frá þessu og vitnar í tvo yfirmenn hjá tyrkneskum öryggissveitum sem kusu að koma ekki undir nafni. Þá hefur forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan sagt að árásin virðist hafa verið gerð af sýrlenskum árásarmanni.

Að minnsta kosti tíu létu lífið og fimmtán eru særðir.

Það virðist vera að einhverjir þeirra látnu og særðu séu erlendir ferðamenn. Utanríkisráðuneyti Noregs hefur greint frá því að Norðmaður hafi særst í sprengingunni og væri nú á sjúkrahúsi. Utanríkisráðuneyti Þýskalands rannsakar nú hvort að Þjóðverjar hafi særst eða látist í sprengunni en að sögn Reuters voru þýskir ferðamenn á svæðinu þegar sprengingin varð. Á heimasíðu ráðuneytisins eru Þjóðverjar í Istanbúl hvattir til þess að forðast mannmergð og ferðamannastaði. Er varað við því að búist sé við „ofbeldisfullum átökum“ og „hryðjuverkaárásum“ í Tyrklandi.

Samkvæmt tyrkneska miðlinum Dogan eru að minnst akosti sex Þjóðverjar, einn Norðmaður og einn Perúmaður meðal þeirra særðu.

Suður-kóreska fréttastofan Yonhap greinir jafnframt frá því að suður-kóreskur ríkisborgari hafi særst í sprengingunni.

Svo virðist sem tyrknesk stjórnvöld hafi sett „tímabundið bann“ á umfjöllun tyrkneskra fjölmiðla um sprenginguna. Tyrkneskir blaðamenn og fréttamiðlar hafa greint frá þessu í dag.  

Bláa moskan hefur girt af.
Bláa moskan hefur girt af. AFP

Tyrkneski miðillinn Today‘s Zaman greinir frá því að Útvarps- og sjónvarpsnefnd ríkisins hafi lagt á tímabundið bann á umfjöllun um árásirnar eftir að þess var krafist af forsætisráðuneytinu.

Ríkisstjórn Tyrklands hélt neyðarfund vegna málsins í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert