Sprengingin líklega hryðjuverk

Að minnsta kosti tíu eru látnir og fimmtán særðir eftir sprengingu sem varð á einum helsta ferðamannastað Istanbúl í morgun. Grunur leikur á að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Sprengingin var mjög kraftmikil og heyrðist vel í hinu sögufræga Sultanahmet-hverfi en þar eru helstu minnismerki borgarinnar og heimsækja tugir þúsunda ferðamanna hverfið á hverjum degi.

Mikil spenna er í Tyrklandi í kjölfar blóðugra sprengjuárása á síðasta ári sem Ríki íslams lýsti ábyrgð á. Til að mynda létu 103 lífið í tvöfaldri sjálfmorðssprengingu í Ankara í október.

„Það leikur grunur á að um hryðjuverk sé að ræða,“ sagði tyrkneskur embættismaður í samtali við AFP. Hann vildi ekki koma fram undir nafni.

Óstaðfestar heimildir herma að maður hafi gengið að hópi ferðamanna á Sultanahmet-torgi og sprengt sig í loft upp. Á torginu eru margir af helstu ferðamannastöðum borgarinnar, til að mynda Bláa moskan og Hagia Sophia eða Ægissif.

Í yfirlýsingu frá skrifstofu ríkisstjóra Istanbúl kemur fram að nú sé verið að rannsaka sprenginguna og mögulega gerendur. Tyrkneski miðillinn Dogan hefur birt myndir af vettvangi þar sem má sjá lík á jörðinni.

Sprengingin varð um klukkan 10:20 að staðartíma í morgun við Dikilitaş-broddsúluna, sem er minnismerki frá Forn-Egyptalandi. Súlan var endurreist af rómverska keisaranum Þeódósíusi í borginni á fjórðu öld eftir Krist. Súlan er einn vinsælasti ferðamannastaður borgarinnar.

Þá logar jafnframt eldur í hóteli sem verið er að byggja í Gülsuyu-hverfi borgarinnar. Samkvæmt frétt tyrkneska miðilsins Today's Zaman kviknaði eldurinn klukkan 10:30 í morgun að staðartíma, aðeins tíu mínútum eftir að sprengjan sprakk á Sultanahmet-torgi. 

Ekki liggur fyrir hvað gerðist en að sögn vitna heyrðist sprenging áður en eldurinn sást. Að sögn Cihan-fréttamiðilsins voru margir iðnaðarmenn fastir inni í byggingunni.

Bæjarstjóri Maltepe, þar sem Gülsuyu-hverfið stendur, greindi frá því á Twitter að öllum hefði verið bjargað úr húsinu. Nú er unnið að því að slökkva eldinn. 

Lögregla hefur girt svæðið af.
Lögregla hefur girt svæðið af. AFP
AFP
Dikilitaş broddsúlan
Dikilitaş broddsúlan Af Wikipedia
Neyðaraðilar sinna fórnarlömbum.
Neyðaraðilar sinna fórnarlömbum. AFP
Lögreglumenn ræða saman á torginu.
Lögreglumenn ræða saman á torginu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert