Mikill eldur á Ritz hótelinu í París

Slökkviliðsmaður berst við eldinn í morgun.
Slökkviliðsmaður berst við eldinn í morgun. AFP

Mikill eldur braust út á hinu sögufræga Ritz hóteli í París í morgun. Hótelið hefur verið lokað vegna framkvæmda í þrjú ár en átti að opna aftur í mars. Eldurinn er á efstu hæð hótelsins og þaki þess að sögn talsmanns slökkviliðs Parísarborgar samkvæmt frétt AFP.

Hann sagði jafnframt að enginn hefði verið inni á hótelinu þegar að eldurinn kviknaði en að hann hefði áhrif á stóran hluta þess. Reykur sást rísa upp úr húsinu sem stendur í hjarta borgarinnar.

Um 60 slökkviliðsmenn á 15 slökkviliðsbílum voru sendir á staðnum eftir að tilkynnt var um eldinn klukkan 6 í morgun að staðartíma.

„Nú er mikilvægast að eldurinn dreifi sér ekki frekar,“ sagði talsmaðurinn.

Hótelið er fjórar hæðir og í eigu egypska milljarðamæringsins Mohamed Al Fayed.

Hótelið er eins og fyrr segir sögufrægt og voru fastakúnnar þess til að mynda Charlie Chaplin, Coco Chanel og Ernest Hemingway, en lítill bar á hótelinu er nefndur eftir rithöfundinum. Þá snæddu Díana prinsessa og Dodi Fayed þar kvöldið sem þau létu lífið í bílslysi árið 1997.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert