Bandarískur háskólanemi hefur verið handtekinn í Norður-Kóreu en hann er grunaður um að hafa framið „árás á ríkið“.
Samkvæmt frétt norðurkóreska miðilsins Korean Central News Agency heitir maðurinn Otto Frederick Warmbier og er nemandi við háskóla í Virginíu. Því er haldið fram að hann hafi verið í landinu sem ferðamaður en á sama tíma verið að skipuleggja „að eyðileggja samheldni þjóðarinnar“ og var víst gómaður við það að fremja „fjandsamlega árás gegn ríkinu“.
Er því jafnframt haldið fram að Warmbier hafi tengst bandarískum stjórnvöldum og að meintri árás hans hafi verið stjórnað af yfirvöldum.
Gareth Johnson, talsmaður kínverskrar ferðaskrifstofu sem Warmbier notaði til að komast til Norður-Kóreu, staðfesti að hann hefði verið handtekinn í landinu 2. janúar.
Að sögn Johnsons er hann í sambandi við fjölskyldu mannsins, utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og sendiráð Svíþjóðar í Pyongyang sem sér um mál Bandaríkjamanna í Norður-Kóreu.
Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur síðustu vikur einnig verið að rannsaka mál annars bandarísks ríkisborgara sem er haldið í Norður-Kóreu. CNN sagði frá því fyrir tveimur vikum að maður sem gengur undir nafninu Kim Dong Chul væri þar í haldi, ákærður fyrir njósnir.