Breskir lögreglumenn eru á leið til grísku eyjunnar Kos til að leita að nýjum vitnum sem gætu aðstoðað við leitina að Ben Needham. Ben var 21 mánaða er hann hvarf á eyjunni fyrir 25 árum.
Ben er frá Sheffield. Hann var í fríi með móður sinni, afa og ömmu er hann hvarf 24. júlí árið 1991. Sé hann á lífi er hann í dag 26 ára.
Í gegnum árin hafa annað slagið komið fram vísbendingar um hvarf hans. Í byrjun árs tilkynnti svo lögreglan í Suður-Yorkshire að hún hefði fengið sérstaka fjárúthlutun til að halda leitinni áfram.
Í frétt Guardian segir að á morgun muni 10 lögreglumenn fljúga til Kos til að halda rannsókn málsins áfram. Í tilkynningu á vef sem helgaður er leitinni segir að þeir ætli að reyna að hafa uppi á vitnum sem gætu aðstoðað við leitina. Lögreglumennirnir munu segja frá gangi rannsóknarinnar á blaðamannafundi er út er komið. Fundurinn verður haldinn á sveitabænum þaðan sem Ben litli hvarf.
Frétt mbl.is: Nýjar vísbendingar um hvarf Bens Needham
Ben fór ásamt ömmu sinni að sveitabænum til að heimsækja afa sinn sem var þar að vinna við endurbætur á húsum.
Móðir Bens Kerry, segist þess fullviss að einhver á eyjunni Kos viti eitthvað um hvarf drengsins og hvetur alla þá sem búa yfir einhverjum upplýsingum, hversu ómerkilegar sem þeir telja þær vera, að gefa sig fram við lögregluna.
Árið 2012 leitaði lögreglan ítarlega að líki Bens við sveitabæinn. Engin ummerki fundust.
Fjölskylda Bens segir að málið hafi aldrei verið rannsakað til hlítar á sínum tíma.