„Getur verið að þú sért Ben?“ er slagorð leitar bresks teymis lögreglumanna að Ben Needham sem hvarf á grísku eyjunni Kos árið 1991, þá tæplega 2 ára gamall. Aukinn kraftur hefur nú verið settur á ný í leitina og fór teymið til Kos í gær til að leita nýrra vitna og sönnunargagna.
Ben var í fríi ásamt móður sinni, ömmu og afa á Kos árið 1991 er hann hvarf. Amma hans hafði farið með hann að sveitabæ að heimsækja afa hans sem var þar að vinna að endurbótum húss.
Sé Ben enn á lífi er hann orðinn 26 ára. Fjölskylda hans hefur alla tíð sagt að rannsókn málsins hafi ekki verið viðunandi á sínum tíma.
Í morgun hélt lögregluteymið blaðamannafund á sveitabænum þaðan sem Ben hvarf. „Ef við munum finna Ben á lífi munum við taka ákvarðanir um framtíð hans í samvinnu við hann, ákvarðanir sem við vitum að hann getur sætt sig við,“ sagði lögreglumaðurinn Jon Cousins á fundinum í morgun, segir í frétt Sky.
Lögreglan er með lífsýni úr Ben og er tilbúin að bera það saman við lífsýni karlmanna sem gefa sig fram. „Spurningin sem við viljum að fólk spyrji sig er: Getur verið að ég sé Ben?“ segir Cousins. „Varstu bláeygður og ljóshærður sem barn? Hefur þú einhverjar efasemdir um uppruna þinn, ertu t.d. ólíkur foreldrum þínum? Eru kannski ekki til neinar ljósmyndir af þér sem barni?
Lögreglan hvetur alla sem hafa einhverjar efasemdir um að setja sig í samband. Fullum trúnaði er heitið.
Árið 1993, tveimur árum eftir að Ben hvarf, barst mannúðarsamtökunum Missing People símtal. Sá sem hringdi sagði að Ben byggi í Grikklandi og hefði fengið nýtt nafn, Andreas. Hann væri í umsjón manns sem héti Nicos. Þetta símtal er meðal þeirra vísbendinga sem nú varð til þess að rannsókn málsins hefur verið tekin upp að nýju.
Fréttir mbl.is: