Áttu að leita Bens en fóru á fyllerí

Götublaðið The Sun birti fyrst fjölmiðla fréttina um fyllerí lögreglumannanna.
Götublaðið The Sun birti fyrst fjölmiðla fréttina um fyllerí lögreglumannanna. Skjáskot/Sun

Lögreglumenn frá Bretlandi sem voru sendir til grísku eyjunnar Kos að leita Bens Needhams, sem hvarf þar sporlaust árið 1991, fóru á margra klukkustunda fyllerí. Að minnsta kosti einn hefur verið sendur heim vegna málsins.

Í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar um málið segir að lögreglumennirnir, að minnsta kosti hluti hópsins, séu grunaðir um að hafa setið að sumbli í fleiri klukkustundir. Mennirnir eru frá lögreglunni í South Yorkshire, en það bjó Ben litli  með fjölskyldu sinni áður en hann hvarf.

Lögregluteymið kom til Kos á þriðjudag og hélt þá blaðamannafund þar sem lýst var enn og aftur eftir Ben. Þeim er svo ætlað að leita frekari sönnunargagna varðandi hvarfið. En síðdegis þann dag, eða um kl. 17, fóru þeir á barinn að drekka og sumir voru að þar til eftir miðnætti.

Í hópnum eru tíu lögreglumenn.

Árið 1991 fór Ben í frí til Kos ásamt móður sinni, ömmu og afa. Amman fór með Ben að sveitabæ á eyjunni þar sem afi hans vann við að gera upp hús. 

Sé hann á lífi er hann orðinn 26 ára í dag.

Lögreglan í South Yorkshire fékk aukafjármagn í febrúar til að hefja að nýju rannsókn á hvarfi Bens.

Í frétt Sky er haft eftir einum lögreglumannanna að opinberir fjármunir hafi ekki verið notaðir til að kaupa áfengi á Kos. Hann segir að teymið vinni að því hörðum höndum að afla upplýsinga um mannshvarfið.

Fréttin um drykkjuna birtist fyrst í dagblaðinu The Sun og hefur móðir Bens, Kerry Needham, gagnrýnt blaðið harðlega fyrir að birta fréttina. Hún segir að með því að senda einn lögreglumann heim sé allri rannsókninni stefnt í hættu en sá er víst lykilmaður í rannsóknarvinnunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka