Rannsakað sem mögulegt hryðjuverk

Hópur fólks stendur fyrir utan verslunarmiðstöðina St. Cloud eftir árásina …
Hópur fólks stendur fyrir utan verslunarmiðstöðina St. Cloud eftir árásina . AFP

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsakar hnífaárás sem gerð var í verslanamiðstöð í borginni St. Cloud í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi sem „mögulegt hryðjuverk“. Níu manns særðust í árásinni og var maðurinn að lokum skotinn til bana af lögreglumanni á frívakt.

Bandarískir fjölmiðar segja árásarmanninn hafa verið 22 ára Bandaríkjamann af sómölskum uppruna og hefur Amaq, opinber fréttaveita Ríkis íslams, sagt manninn hafa verið einn af vígamönnum hryðjuverkasamtakanna.

Frétt mbl.is: Réðst á fólk með hnífi

Lögreglan í St. Cloud hefur staðfest að maðurinn hafi spurt nokkur fórnarlamba sinna hvort þau væru múslimar áður en hann stakk þau og þá „skír­skotaði hann einnig til Allah“ þegar hann réðst gegn þeim.

Tvö staðarblöð, Minneapolis Star Tribune og St. Cloud Times, segja árásarmanninn hafa verið Dahir Adan og í viðtali Minneapolis Star Tribune við föður Adans segir hann son sinn hafa verið háskólastúdent sem hafi verið í hlutastarfi sem öryggisvörður. Adan fæddist í Afríku, en hafði búið í Bandaríkjunum sl. 15 ár og sagði faðir hans að ekki hvarflaði að sér að hann tengdist neinum hryðjuverkasamtökum.

Amaq-fréttaveitan hefur engu að síður sagt Adan hafa verið einn „hermanna Ríkis íslams“. Samtökin hafa ítrekað hvatt til árása í Bandríkjunum og öðrum þeim ríkjum sem styðja loftárásir á þau svæði í Sýrlandi og Írak sem eru undir stjórn Ríkis íslams.

„Við rannsökum árásina nú sem mögulegt hryðjuverk,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Rick Thornton, yfirmanni rannsóknarinnar hjá FBI.  Engin slík tengsl hefðu hins vegar enn verið staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka