Fundu efnisbút við leitina að Ben

Ben Needham hvarf fyrir 25 árum. Hann var þá tæplega …
Ben Needham hvarf fyrir 25 árum. Hann var þá tæplega tveggja ára. Skjáskot af Sky

Lögreglumennirnir sem leita að breska drengnum Ben Needham á grísku eyjunni Kos segjast hafa fundið „athyglisverða“ hluti við uppgröftinn, m.a. efnisbút.

Ben litli var 21 mánaða er hann hvarf fyrir 25 árum. Hann var þá í fríi með fjölskyldu sinni á Kos. Síðast sást til hans við sveitabæ þar sem afi hans var að gera upp hús.

Nítján lögreglumenn frá Yorkshire sem og fulltrúar frá tæknideild lögreglunnar rannsaka nú svæðið umhverfis sveitabæinn. Gröftur hófst síðdegis í gær. 

Í kjölfar hvarfsins á sínum tíma var helst talið að honum hefði verið rænt. Nú er hins vegar rannsakað hvort að hann hafi kannski látist og verið grafinn við sveitabæinn.

Lögreglufulltrúinn Jon Cousins segir í samtali við Sky-fréttastofuna að teyminu hafi orðið vel ágengt síðustu klukkustundir. Á svæðinu hafi m.a. fundist bein í jörðu og verið sé að ganga úr skugga um hvort þau séu öll af dýrum eins og talið sé líklegast. 

Hann segir að aðrir hlutir hafi einnig fundist, m.a. gamall efnisbútur. Hann verði sérstaklega rannsakaður. „Við rannsökum allt ofan í kjölinn. Við viljum vera alveg viss: Tengjast þessir hlutir Ben eða ekki?“

Í frétt Sky kemur fram að móðir Bens, Kerry Needham, hafi verið undirbúin fyrir það versta. Rannsakendur telji nú líklegast að Ben hafi látist af slysförum daginn sem hann hvarf.

Drengurinn var klæddur í hvíta og græna treyju og með leður sandala á fótum er hann hvarf þann 24. júlí árið 1991.

Allt sem finnst við uppgröftinn verður sent til rannsóknar í Bretlandi.

Stefnt er að því að grafa við sveitabæinn alla þessa viku.

Frétt Sky í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka