Teymi breskra lögreglumanna ætlar að framlengja leit sína að Ben Needham á grísku eyjunni Kos. Ben hvarf sporlaust árið 1991 er hann var 21 mánaðar gamall. Síðast sást til Bens við sveitabæ á eyjunni og hefur lögregluteymið leitað undanfarna daga við bæinn, m.a. með því að grafa í jarðveginum og brjóta viðbyggingu til grunna. Talið er mögulegt að Ben hafi orðið undir vinnuvél við bæinn og að ökumaður hennar hafi falið líkið.
Til stóð að hætta leitinni í þessari viku en lögreglan vill fá að leita í einhverja daga til viðbótar. Er áætlað að hefja leit á öðru svæði á jörðinni.
Í vikunni braut lögreglan niður viðbyggingu við hús á bænum. Sú viðbygging var ekki til staðar þegar Ben hvarf á sínum tíma. Til að leita af sér allan grun vilja lögreglumennirnir fá lengri tíma. Þeir hafa ekki gefið upp hvort eitthvað hafi fundist við bæinn sem bendi til þess að líkamsleifar Ben sé þar að finna.