Ben Needham lést „að öllum líkindum“ í slysi í nágrenni sveitabæjar á grísku eyjunni Kos. Þetta er niðurstaða teymis breskra lögreglumanna sem hefur rannsakað umhverfi sveitabæjarins þar sem Ben sást síðast árið 1991. Ben litli var 21 mánaða gamall er hann hvarf sportlaust. Lengi var talið að honum hefði verið rænt. Málið var endurupptekið í fyrra og síðustu vikur hefur verið grafið við sveitabæinn eftir vísbendingum um drenginn.
Lögreglumennirnir gáfu stutta skýrslu um niðurstöður sínar við sveitabæinn í dag.
„Það er mitt faglega álit að Ben Needham hafi dáið í slysi nálægt sveitabænum Iraklis þar sem hann sást síðast að leik,“ sagði Jon Cousins á blaðamannafundi í dag, að því er fram kemur í frétt Sky-sjónvarpsstöðvarinnar.
Hann segir að lögreglumennirnir hefðu fundið hlut sem þeir telja að ben hafi verið með er hann hvarf. Ekki hefur verið uppgefið hver hluturinn sé en þegar er búið að sýna fjölskyldu litla drengsins hlutinn.
Lögreglan fékk nýverið nýjar vísbendingar um hvarfið er maður, sem vann við að grafa grunn við bæinn árið 1991, lést. Maður honum tengdur sagði að vinnumaðurinn hefði fyrir slysni ekið yfir drenginn og falið lík hans í örvæntingu.
Teymi lögreglumanna hefur grafið við bæinn síðustu vikur. Einnig var viðbygging, sem ekki var á svæðinu er Ben hvarf, rifin og jarðvegurinn undir henni rannsakaður.
Frétt BBC um málið.