Dómari fannst látinn í Hudson-ánni

AFP

Bandarískur dómari fannst látinn í Hudson-ánni við New York í gær daginn eftir að tilkynning hafði borist lögreglu um að ekkert hefði spurst til hans. Dómarinn, Sheila Abdus-Salaam, var frumkvöðull í stétt bandarískra dómara en hún var fyrsta konan sem játaði íslamstrú til þess að verða skipuð dómari þar í landi. Var hún skipuð dómari 2013.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að lík Abdus-Salaam sem var 65 ára gömul er hún lést og dómari við æðsta dómstól New York-ríkis, hafi fundist fljótandi í ánni út af vesturhluta Manhattan. Engin merki væru um að hún hefði verið beitt ofbeldi og líkið var fullklætt samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.

Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um mögulega dánarorsök. Fjölskylda Abdus-Salaam hefur borið kennsl á líkið og krufning mun fara fram til þess að komast að því hvað olli dauða hennar.

Abdus-Salaam ólst upp í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, útskrifaðist frá Columbia Law School og hóf síðan störf sem lögmaður í New York. Síðar varð hún varasaksóknari í New York-ríki. Hún gegndi ýmsum störfum í dómskerfi ríkisins áður en hún var skipuð dómari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert