Frá því að vera pörupiltur í að verða yngsti lögmaður landsins

Moustafa Mahmoud Moustafa situr í stjórn Amnesty Interanational í Danmörku.
Moustafa Mahmoud Moustafa situr í stjórn Amnesty Interanational í Danmörku. Af Facebook

Þegar hann var þrettán ára var hann stimplaður sem vonlaust tilfelli í skóla. Í dag er hann yngsti lögmaður Danmerkur. Moustafa Mahmoud Moustafa  er 26 ára og er sá yngsti til þess að fá lögmannsréttindi í landinu. 

„Ég nefbrotnaði og hann braut á sér hendina,“ segir Moustafa þegar hann lýsir einu af mörgum atvikum sem hann átti aðild að í bekknum sínum í Herlev. Þar bjó hann ásamt foreldrum og þremur systrum. 

Hann segir í viðtali við TV2 að ef ekki hafi verið fyrir foreldra sem fylgdust grannt með honum líkt og kennarar hans þá hefði getað farið illa fyrir honum. 

„Ég er stoltur yfir því að á tiltölulega stuttum tíma hefur mér tekist að upplifa drauma mína. Minn metnaður hefur verið að verða sá yngsti til þess að hljóta lögmannsréttindi í Danmörku,“ segir Moustafa Mahmoud Moustafa, en nýverið tók hann við skírteini upp á að hafa öðlast lögmannsréttindi frá dómsmálaráðuneytinu (Det Kongelige Danske Justitsministerium).

En í uppvextinum var fátt sem benti til þess að þetta yrði raunin því ef kom til átaka í skólanum var það oftar en ekki hann sem kom að þeim. Moustafa segir að móðir hans hafi liðið fyrir þessa hegðun hans og brotnað saman vegna þess. 

Moustafa náði hins vegar aldrei að komast inn í hóp eldri stráka sem hann leit upp til - strákahóps sem honum fannst mjög flottur og töff. Kennarar hans í grunnskóla gerðu sér fljótt grein fyrir að það þyrfti að veita honum sérstaka athygli og það gerðu þeir skammlaust. Moustafa átti erfitt með að skilja þetta vökula augnaráð kennaranna á sínum tíma en er þakklátur þeim í dag. 

Hann ákvað að segja sögu sína á Facebook í þeirri von að hvetja ungmenni til dáða og láta drauma sína rætast. Hann hefur fengið gríðarleg viðbrögð enda oftar talað um það sem illa fer en það góða. 

Moustafa Mahmoud Moustafa lauk námi við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla árið 2014 og hefur síðan þá starfað hjá Gorrissen Federspiel lögmannsstofunni og foreldrar hans eru stoltir af syni sínum og þá leið sem hann valdi í lífinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert