„Ég heyrði barnið mitt aldrei gráta“

„Ég bað þá að hjálpa mér... ég hringdi stöðugt. En sjúkrabílinn kom aldrei.“ Þetta segir hin 34 ára gamla Teodora del Carmen Vasquez sem afplánar nú 30 ára fangelsisdóm í heimalandinu El Salvador. Hún var ólétt og missti fóstrið en yfirvöld dæmdu hana í fangelsi fyrir morð. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa sent út neyðarkall vegna máls hennar og annarra kvenna sem eru fórnarlömb strangasta banns við fóstureyðingum sem finnst á byggðu bóli.

Fyrir tíu árum var Vasquez stödd í skóla þar sem hún vann. Hún fór að finna fyrir verkjum og hringdi í neyðarlínuna. „Ég sagði þeim að ég væri ólétt og að barnið væri að koma,“ rifjar hún upp í samtali við sjónvarpsstöðina Al Jazeera. En aldrei kom sjúkrabílinn. Fjórum klukkustundum síðar var hún enn með mikla verki og blæðingar. Hún fór inn á baðherbergi skólans. „Er kom þangað inn fann ég að eitthvað kom niður og það leið yfir mig.“

Er hún komst til meðvitundar sat hún í blóði sínu á gólfinu. Hún áttaði sig ekki á því að hún hefði fætt dóttur sína og að barnið hefði verið andvana fætt. Samstarfsmaður hennar hafði tekið eftir blóðslóðinni og kallað til lögreglu úti á götu. Er lögreglan kom var Vasquez ekki veitt læknishjálp sem hún þurfti nauðsynlega á að halda. þess í stað var hún handtekin. „Þeir sögðu mér að þeir væru handtaka mig fyrir morð,“ rifjar hún upp. 

Teodora del Carmen Vasquez hefur verið í fangelsi í áratug.
Teodora del Carmen Vasquez hefur verið í fangelsi í áratug.

Vasquez var 24 ára gömul er þetta átti sér stað og ólétt af öðru barni sínu. Hún man óljóst eftir því þegar lögreglan kom á vettvang. „Ég heyrði ekkert. Ég heyrði aldrei neitt. Ég heyrði aldrei barnið mitt gráta,“ segir hún. 

Hún var flutt í fangelsi þegar í stað. „Þeir sögðu að ég hefði drepið barnið mitt. En þá hélt ég að barnið væri enn inni í mér.“

Er í fangelsið var komið var það aðeins fyrir beiðni lögreglumanns sem leist ekki á blikuna að hún fékk læknisaðstoð. 

Mörgum mánuðum síðar var hún fundin sek um morð og dæmd í þrjátíu ára fangelsi.

Fóstureyðingar eru stranglega bannaðar í El Salvador undir hvaða kringumstæðum sem er. Á þeim lagagrunni var Vasquez dæmd.

Síðan þá hefur hún verið látin dúsa í hinu alræmda Ilopango-fangelsi þar sem fjöldi fanga er margfalt meiri en húsrúm leyfir.

Mannréttindasamtökin Amnesty International krefjast þess í neyðarkalli sínu, sem þau útvörpuðu m.a. í Noregi nýverið, að stjórnvöld í El Salvador breyti lögum um fóstureyðingar til að vernda konur landsins fyrir ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð sem þær nú þurfa að þola vegna laganna. 

Lögfræðingar Vasquez knúðu fram endurskoðum málsins m.a. á þeim rökum að rannsókn þessi hefði verið verulega ábótavant og að ákvörðun dómarans hefði verið byggð á veikum sönnunargögnum. Þeir segjast hafa fengið úr því skorið að barnið hafi verið látið áður en það fæddist. Þá segja þeir að verjendur Vasquez á sínum tíma hafi verið óhæfir. 

El Salvador er í hópi fimm ríkja heims þar sem fóstureyðingar eru bannaðar með öllu. Lögin voru sett árið 1998 og samkvæmt þeim má ákæra konur fyirr morð séu þær grunaðar um brot á lögunum. 

Mannréttindasamtök segja að lögin hafi orðið til þess að skapa gríðarlega tortryggni í garð kvenna sem missa fóstur og fæða andvana börn. Þær eru ítrekað sakaðar um að hafa eytt fóstrunum. „Þegar konar leitar til læknis eftir að hafa misst fóstur er sjálfkrafa ályktað að hún sé sek en ekki saklaus,“ segir Alberto Brunori, yfirmaður Mið-Ameríkudeildar mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt lögunum er hægt að sakfella konur fyrir fóstureyðingu eða morð. Þær sem sakfelldar eru fyrir morð geta átt 30-50 ára fangelsisdóm yfir höfði sér. Kona sem missir fóstur fyrir tólf vikna meðgöngu er yfirleitt ákærð fyrir fóstureyðingu. Hafi hún gengið með barnið lengur en það er hún yfirleitt ákærð fyrir morð. Brunori segir að yfirleitt dæmi dómarar út frá eigin geðþótta. 

Kaþólska kirkjan í El Salvador er mjög fylgjandi hinum hörðu fóstureyðingarlögum og segir erkibiskupinn í San Salvador að öll mannslíf séu heilög. „Eyðing fóstra er morð og ef líf tveggja er í hættu, móður og barns, þá verðum við að bjarga þeim veikari; syninum,“ sagði erkibiskupinn Gregorio Chavez í viðtali við BBC árið 2015.

Stuðningur við lögin er ríkur á þingi landsins, bæði frá stjórn og stjórnarandstöðu. Fjölmiðlar El Salvador fjalla einnig af lítilli gagnrýni um lögin og dóma sem kveðnir eru upp yfir konunum. Þar oft dregin upp mynd af þeim sem morðingjum. Skýringin felst m.a. í því að tvö stærstu dagblöð landsins eru í eigu strangtrúaðra kaþólskra fjölskyldna. 

„Í mörgum tilvikum hafa blaðamenn engan annan kost en að fylgja ritstjórnarstefnunni því þeir óttast að missa vinnuna sína,“ segir blaðamaðurinn Victor Pena. Hann segir að yfirstétt landsins, sem sé mjög fylgjandi lögunum, hafi lítinn sem engan skilning á aðstæðum kvenna af lægri stéttum. „Þeir skilja ekki að í flestum tilvikum hafa konur ekki aðgang að hreinu vatni, rafmagni og hreinlætisaðstöðu. Í þessum fátæku samfélögum átta konur sig jafnvel ekki á að þær séu óléttar.“

Vart hefur nú orðið við ákveðna viðhorfsbreytingu meðal þjóðarinnar. Árið 2013 leiddi skoðanakönnun í ljós að 74% íbúanna eru hlynntir fóstureyðingu ef líf móðurinnar er í hættu. 

Hópur sautján kvenna

Dómurinn sem Carmen Vasquez hlaut er einn sá þyngsti sem fallið hefur. En mál hennar er þó ekki einstakt. Hún er í hópi kvenna, sem kallaður er Sautján, sem dæmdur var á grundvelli fóstureyðingarlaganna á árunum 1999 til 2011. Konurnar og stuðningsmenn þeirra segja þær allar hafa misst fóstur, fætt andvana börn eða misst börn sín skömmu eftir að þau fæddust. Flestar þessara kvenna voru ungar og fátækar er þær voru dæmdar. Kvennasamtök í El Salvador segja að margar þessara kvenna hafi komið á heilsugæslustöðvar í leit að aðstoð eftir að hafa fengið verki og jafnvel miklar blæðingar. Heilbrigðisstarfsfólk óttast að verða ákært sjálft hjálpi það konum í slíkum tilvikum. Því klagar það þær til yfirvalda. 

Allt frá árinu 2014 hafa mannréttindasamtök barist fyrir því að mál kvennanna sautján verði endurskoðuð. Árangur hefur náðst í þremur málanna og dómi þeirra kvenna verið snúið við.

Carmen Vasquez veit ekki hvað taki nú við. Helst langar hana að yfirgefa landið þar sem hún óttast að verða áreitt þar sem hún hefur komið fram opinberlega og sagt frá sínu máli. „Mig langar að fara og koma aldrei aftur. Trúðu mér, ég tel að landið mitt hafi ekki komið vel fram við mig. Ég átti ekki von á þessu. Ég átti ekki von á þessu í mínu heimalandi.“

Í gær mætti Vasquez fyrir dóm að nýju og lýsti enn og aftur yfir sakleysi sínu. Mál hennar er nú til endurskoðunar. Því var frestað til miðvikudags. Ákvörðunar um framtíð hennar er því að vænta á næstu dögum.

Amnesty International hefur barist fyrir því að Teodora del Carmen …
Amnesty International hefur barist fyrir því að Teodora del Carmen Vasquez verði sýknuð og leyst úr haldi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert